Erlent

751 ómerkt barnsgröf fannst við skóla í Kanada

Árni Sæberg skrifar
Frá samstöðufundi sem haldinn var til að minnast frumbyggjabarna sem létust í heimavistarskólum í Kanada.
Frá samstöðufundi sem haldinn var til að minnast frumbyggjabarna sem létust í heimavistarskólum í Kanada. Anadolu/Getty

Frumbyggjaþjóð í Saskatchewan fylki í Kanada hefur uppgötvað hundruð ómerktra barnagrafa við fyrrum heimavistarskóla ætluðum börnum af frumbyggjaættum.

Í sameiginlegri tilkynningu frá sambandi frumbyggjaþjóða í Saskatchewan og Cowessess frumbyggjaþjóðinni kemur fram að fjöldi grafa sem fannst við skólann sé sá mesti sem fundist hefur í Kanada. Fjölmiðlafundur um málið verður haldinn seinna í dag.

Perry Bellegarde, landshöfðingi sambands frumbyggjaþjóða, segir fundinn hörmulegan en ekki óvæntan. „Ég hvet alla Kanadamenn til að standa með frumbyggjaþjóðunum á þessum erfiðu og tilfinningaþrungnu tímum,“ segir hann á Twitter.

Börnum af frumbyggjaættum í Kanada var gert að sækja sérstaka heimavistarskóla á nítjándu öld og hluta tuttugustu aldar. Aðstæður í skólunum voru hræðilegar og börnin voru mörg hver beitt miklu ofbeldi. Talið er að allt að sex þúsund börn hafi látist í skólunum.

Á síðustu árum hafa ómerktar grafir og jafnvel fjöldagrafir fundist þar sem heimavistarskólarnir stóðu áður. Í síðasta mánuði fundust lík 215 barna í fjöldagröf við einn slíkan skóla í Bresku Kólumbíu.


Tengdar fréttir

Fjölda­gröf kanadískra barna fannst við skóla

Fjöldagröf 215 kanadískra barna hefur fundist í Bresku Kólumbíu í Kanada. Er þar um að ræða börn af frumbyggjaættum sem sóttu heimavistarskóla. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Felldu styttu af hönnuði heima­vistar­skólanna

Stytta af Egerton Ryerson, sem jafnan er talinn einn hönnuða heimavistarskóla fyrir börn af frumbyggjaættum í Kanada, var felld af mótmælendum í Toronto um helgina. Mótmælendur komu saman til þess að lýsa yfir óánægju vegna fjöldagrafar sem fannst við heimavistarskóla á dögunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×