Innlent

Hrað­próf tekin í notkun hér á landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hraðpróf hafa verið tekin í notkun hér á landi en þau eru þó ekki tekin gild á landamærum Íslands.
Hraðpróf hafa verið tekin í notkun hér á landi en þau eru þó ekki tekin gild á landamærum Íslands. EPA-EFE/DIEGO AZUBEL

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið í notkun hraðpróf til greiningar á kórónuveirunni. Prófin eru ekki notuð við einkennasýnatöku heldur eru þau einungis ætluð þeim sem þurfa að sýna fram á neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku á landamærum.

Hraðprófin kosta 4.000 krónur fyrir alla, sama hvort sá sem tekur slíkt próf er sjúkratryggður hér á landi eður ei. Hingað til hafa aðeins PCR-próf til að greina Covid-19 verið notuð hér á landi og á landamærum Íslands eru aðeins teknar gildar niðurstöður úr PCR-prófum.

Hraðprófin eru þannig aðeins í boði fyrir þá sem eru að ferðast til landa þar sem slík próf eru tekin gild á landamærum. Heilsugæslan býður einnig upp á töku PCR-prófa fyrir ferðalög, fyrir einkennalausa einstaklinga, og er gjald fyrir slíka sýnatöku 7.000 krónur fyrir alla.

Fjöldi landa tekur hraðpróf gild á landamærum og má því gera ráð fyrir að talsverð eftirspurn verði eftir slíkum prófum hér á landi hjá fólki sem hyggst út að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins. Niðurstaða hraðprófa liggur fyrir á um klukkustund eftir að það hefur verið tekið en það tekur allt að sólarhring að fá niðurstöðu úr PCR-prófi.

Þó ber þess að gera að hraðpróf eru ekki jafn örugg og PCR-próf og gildir sú regla hér á landi að greinist einstaklingur með Covid-19 í hraðprófi þarf hann að undirgangast PCR-próf.


Tengdar fréttir

Taka hraðpróf í notkun á mánudag

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun á mánudag taka í notkun hraðpróf til að greina kórónuveiru í fólki. Hraðprófið er mun fljótvirkara og ódýrara en próf sem hafa verið notuð hingað til og er vonast til að það létti álagi á heilbrigðiskerfið sem ferðamannastraumurinn veldur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×