Fótbolti

„Ef einhver átti þetta skilið þá voru það okkar leikmenn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danska landsliðið fagnar fréttum af sigri Belga og þar með sæti í sextán liða úrslitum.
Danska landsliðið fagnar fréttum af sigri Belga og þar með sæti í sextán liða úrslitum. AP/Martin Meissner

Danska landsliðið upplifði sannkallað kraftaverkakvöld í Kaupmannahöfn í gær þegar liðið tryggði sér áfram í sextán liða úrslit á Evrópumótinu eftir að öll úrslit féllu með þeim.

Danir hafa upplifað mikið mótlæti á þessu Evrópumóti, allt frá því að missa sinn besta mann, Christian Eriksen, í hjartastopp í miðjum leik, tapa síðan leiknum þegar allt liðið var í losti og fá síðan ekkert út úr Belgaleiknum þrátt fyrir flotta frammistöðu.

Danir mættu því stigalausir til leiks í lokaleikinn og þurftu að minnsta kosti tveggja marka sigur á Rússum á sama tíma og Belgar myndu vinna Finna. Það gekk eftir því Danir unnu 4-1 og Belgar 2-0.

Kasper Hjulmand, þjálfari danska liðsins, var kátur eftir leikinn. Í leikslok þá hópuðust dönsku leikmennirnir í kringum síma sem sýndi stöðuna í leik Belga og Finna. Hjulmand var spurður út í það á blaðamannafundi.

„Hringurinn kom til vegna að þess að það væri fáránlegt að hlaupa um og fagna án þess að fá réttu úrslitin úr Finnaleiknum,“ sagði Kasper Hjulmand.

„Við vonuðumst til að þetta yrði kraftaverkakvöld. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa stutt við bakið á okkur og hafa sýnt okkur alla þessa ást. Ég sá að það hafði mikil áhrif á leikmennina og þetta skipti okkur gríðarlega miklu máli,“ sagði Hjulmand.

„Ákveðnin, liðsandinn og vinátta leikmanna voru stórkostleg. Ef einhver átti þetta skilið þá voru það okkar leikmenn. Ég get varla ímyndað mér hvernig þeim tókst að koma til baka eftir að hafa gengið í gegnum þetta,“ sagði Hjulmand.

Danir mæta Wales í sextán liða úrslitunum en það er einmitt fyrsti leikur útsláttarkeppninnar á laugardaginn kemur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.