Fótbolti

Öruggt hjá Vestra í Vesturlandsslagnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Vestramenn fögnuðu sigri í dag.
Vestramenn fögnuðu sigri í dag.

Vestri vann öruggan 3-0 sigur á Víkingi frá Ólafsvík á Ólafsvíkurvelli í síðasta leik sjöundu umferðar Lengjudeildar karla í fótbolta síðdegis. Víkingar leita enn síns fyrsta sigurs í sumar.

Vestri þurfti sigur í dag til að halda í við liðin fyrir ofan þá sem keppast um næst efsta sæti deildarinnar. Víkingar gátu hins vegar jafnað Þrótt að stigum með sigri.

Vestramenn sendu hins vegar skilaboð snemma leiks þegar Vladimir Tufegdzic kom þeim í forystu eftir aðeins sex mínútna leik. Ignacio Gil bætti öðru marki við hálftíma síðar og 2-0 stóð í hléi. Tufegdzic skoraði svo sitt annað marki þegar átta mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og þar við sat.

Vestri er þá í sjötta sæti deildarinnar með 12 stig, aðeins stigi á eftir Fjölni og ÍBV í sætunum fyrir ofan, og þremur frá Grindavík sem er í öðru sæti.

Víkingur er sem fyrr í botnsætinu með eitt stig eftir sjö leiki, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.