Fótbolti

Ísak Óli kveður Kefla­vík og semur við Esb­jerg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Óli í leik með íslenska U-21 árs landsliðinu gegn því danska.
Ísak Óli í leik með íslenska U-21 árs landsliðinu gegn því danska. Peter Zador/Getty Images

Ísak Óli Ólafsson mun ekki spila meira með Keflavík í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu þar sem hann er á leið til Danmerkur til að skrifa undir samning hjá Esbjerg.

Ísak Óli var á hafði komið aftur heim til Keflavíkur á láni frá danska úrvalsdeildarfélaginu SønderjyskE en félagið festi kaup á miðverðinum 2019. Lánssamningurinn átti að gilda til ágúst á þessu ári en Ísak Óli er nú á leið til Danmerkur þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Esbjerg og skrifa í kjölfarið undir samning við félagið.

„Það var virkilega ánægjulegt að sjá Ísak aftur í Keflavíkurtreyjunni og hann er að sjálfsögðu alltaf velkominn aftur. Núna vonum við að okkar maður springi út og sýni sínar allra bestu hliðar í Danaveldi,“ segir í tilkynningu frá Keflavík.

Esbjerg spilar í dönsku B-deildinni en var lengi vel í baráttunni um að komast upp í úrvalsdeildina. Liðið var mikið Íslendingalið á síðustu leiktíð en Ólafur Kristjánsson þjálfaði liðið og þá léku Kjartan Henry Finnbogason og Andri Rúnar Bjarnason með liðinu.

Andri Rúnar er einn eftir í herbúðum félagsins og hefur verið orðaður við brottför.

Ísak Óli spilaði sex leiki með Keflavík í sumar og ljóst að hans verður saknað úr hjarta varnarinnar. Ísak Óli lék sinn fyrsta A-landsleik á dögunum er Ísland tapaði 2-1 gegn Mexíkó en hann var einnig hluti af U-21 árs landsliði Íslands sem fór alla leið í riðlakeppni EM fyrr á árinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.