Erlent

Þyngdartap Kim vekur upp spurningar um heilsu hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Kim Jong-un virðist hafa tekið sig á. Myndin vinstra megin var tekin í febrúar en sú síðari í þessari viku.
Kim Jong-un virðist hafa tekið sig á. Myndin vinstra megin var tekin í febrúar en sú síðari í þessari viku. Vísir/AP

Nýlegar myndir benda til þess að Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafi grennst töluvert að undanförnu. Þær hafa vakið miklar vangaveltur um heilsufar leiðtogans.

Kim hefur verið þekktur fyrir þykja sopinn góður og reykja. Þá er létust faðir hans og afi báðir úr hjartasjúkdómum. Sérfræðingar hafa því talað um að holdafar Kim gæti aukið líkur hans á hjarta- og æðasjúkdómum.

Nú virðist Kim, sem er 37 ára gamall, hafa tekið sig á því að á nýlegum myndum af honum í ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu virðast kílóin hafa fokið af honum. AP-fréttastofan segir að sumir sérfræðingar í nágrannaríkinu Suður-Kóreu áætli að Kim kunni að hafa tapað allt að tíu til tuttugu kílóum.

Hong Min, greinandi við Þjóðareiningarstofnunina í Suður-Kóreu, segir að þyngdartapið bendi líklega frekar til þess að Kim hafi farið í heilsuátak en að hann þjáist af sjúkdómi.

„Ef hann þjáðist af heilsubresti kæmi hann ekki fram opinberlega og stýrði þingi miðstjórnar Verkamannaflokksins,“ segir Hong og vísar til stórrar stjórnmálaráðstefnu sem stendur yfir í tvo til þrjá daga í þessari viku.

Vangaveltur og orðrómar um heilsubrest Kim gengu fjöllunum hærra í fyrra þegar hann var ekki viðstaddur athöfn í tilefni af afmælisdegi afa síns, stofnanda alræðisríkisins. Þá spáðu sumir greinendur því að Kim Yo Jong, systir leiðtogans, væri næst í röðinni til að taka við af honum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.