Fótbolti

Í bann fyrir að móðga mótherja en ekkert aðhafst vegna meints bits

Sindri Sverrisson skrifar
David Alaba reyndi að fá Marko Arnautovic til að haga sér skikkanlega.
David Alaba reyndi að fá Marko Arnautovic til að haga sér skikkanlega. EPA/Robert Ghement

Marko Arnautovic má ekki spila með Austurríki gegn Hollandi á EM á morgun. Hann hefur verið úrskurðaður í leikbann fyrir níð í garð andstæðinga.

Arnautovic, sem er af serbneskum uppruna, fagnaði marki sínu í 3-1 sigrinumg egn Norður-Makedóníu með óvenjulegum hætti. Hann virtist láta ljót orð falla í garð varnarmanna Norður-Makedóníu, Egzon Bejtulai og Ezgjan Alioski, sem báðir eru af albönskum uppruna, og kallaði sömuleiðis til áhorfenda uppi í stúku áður en fyrirliðinn David Alaba náði að grípa í hann.

UEFA lét gera rannsókn á atvikinu og úrskurðaði Arnautovic svo í eins leiks bann í dag með þeim rökum að hann hefði móðgað annan leikmann.

Antonio Rudiger, varnarmaður Þýskalands, fær hins vegar enga refsingu eftir að hafa virst bíta í Paul Pogba í leiknum við Frakkland í gærkvöld. Rudiger segist ekki hafa bitið Pogba en viðurkennir að atvikið hafi litið illa út. „Við Paul höfum þegar rætt þetta sem vinir eftir leikinn,“ sagði Rudiger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×