Innlent

Aukin vernd þolenda mansals

Árni Sæberg skrifar
Frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur um mansal hefur verið samþykkt.
Frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur um mansal hefur verið samþykkt. Vísir/Vilhelm

Eitt síðustu verka Alþingis á kjörtímabilinu sem leið var að samþykkja breytingu á ákvæði almennra hegningarlaga um mansal.

Frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um ákvæði um mansal í almennum hegningarlögum var samþykkt á síðasta degi þingsins í síðustu viku.

Markmið lagabreytingarinnar er að bæta vernd þolenda mansals og auðvelda málsókn á hendur þeim sem ábyrgir eru fyrir brotunum. 

Lagabreytingin stuðlar að aukinni samræmingu löggjafar við lagaþróun á Norðurlöndunum. Þá er breytingin liður í því standa við skuldbindingar íslenskra stjórnvalda sem þau hafa tekist á hendur með því að fullgilda alþjóðlega samninga sem hafa það að markmiði að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi og mansali.

Víðtækar aðgerðir gegn mansali

Í tengslum við lagabreytinguna voru í dag kynntar víðtækar aðgerðir gegn mansali á Íslandi. 

Upplýsingum um mansal hefur verið bætt inn á vefgátt Neyðarlínunnar, 112.is. Þar geta þolendur leitað sérhæfðrar hjálpar og ráðgjafar og aðrir aflað sér upplýsinga um einkenni mansals og leitað úrræða ef grunur er um að einstaklingur sé þolandi mansals.

Hægt er að fá samband við neyðarvörð sem virkjar viðbragð þeirra sem veita þolendum mansals aðstoð og leiðbeinir áfram til þeirra úrræða sem standa þolendum og öðrum til boða þegar kemur að mansali.

Unnið er að stofnun ráðgjafateymis innan lögreglunnar undir forystu embættis ríkislögreglustjóra sem hefur það hlutverk að vera öllum lögregluembættum landsins til ráðgjafar þegar kemur að mansali, bæði hvað varðar greiningu mála sem og rannsókn þeirra. 

Þá hefur hópurinn það markmið að miðla reynslu og þekkingu til lögreglumanna og sækjenda á landinu öllu og halda utan um tölfræði og stöðuna um mansal í íslensku réttarvörslukerfi.

Tveggja ára vinna á bak við aðgerðirnar

Aðgerðirnar eru meðal annars árangur af vinnu samráðshóps stjórnvalda um mansal sem hefur unnið að því að innleiða áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Áherslurnar voru fyrst kynntar í mars 2019 en komast nú til fullra framkvæmda.

„Breyting á ákvæði almennra hegningarlaga liðkar fyrir því að mál er varða grun um mansal fái framgang innan réttarvörslukerfisins og gerendur sæti refsingu fyrir þessi alvarlegu brot. Með því treystum við enn frekar vernd þolenda mansals, ekki síst kvenna og barna,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra um lagabreytinguna.

Karl Steinar Valsson, yfirmaður alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra, segir mansal vera hluta af skipulagðri brotastarfsemi og að mikilvægt sé að styrkja lögregluna faglega séð svo hún geti tekist á við sífellt flóknari brot sem tengjast mansali. „Þessar aðgerðir eru mikilvæg skref í rétta átt,“ segir hann að lokum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×