Innlent

Bólu­setning á pari og engir auka­skammtar í dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bólusetningardagurinn var að renna sitt skeið þegar blaðamaður tók stöðuna í Laugardalshöll.
Bólusetningardagurinn var að renna sitt skeið þegar blaðamaður tók stöðuna í Laugardalshöll. Vísir/Vilhelm

Ekki verður hægt að mæta í Laugardalshöll í dag og fá bóluefni Pfizer gegn kórónuveirunni án þess að vera með boðun.

Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þegar fréttastofa náði tali af henni voru um 400 skammtar af bóluefninu ónotaðir. Þá átti eftir að bólusetja um 200 manns inni í höllinni og enn var einhver fjöldi boðaðra í röð fyrir utan.

„Við erum hætt að hleypa inn og það verða engir aukaskammtar,“ segir Ragnheiður en undanfarið hefur stundum verið hægt að fara í bólusetningu seinnipart dags án þess að vera með boðun, þegar mæting hefur verið dræm. Þannig var það til að mynda í gær, þegar bólusett var með bóluefni Janssen, sem gekk þó allt út á endanum.

Ragnheiður segir að bólusetning hafi um það bil verið á pari, það er að segja að sá fjöldi sem búist var við hafi mætt, þó einhverjir sem fengu boðun í dag kunni að sitja eftir með sárt ennið og enga bólusetningu í dag. Réttur þeirra til bólusetningar fellur þó ekki niður, heldur helst hann áfram og viðkomandi geta framvísað strikamerki sínu næst þegar bólusett er með bóluefni Pfizer.

Á morgun verður bólusett með bóluefni Moderna á höfuðborgarsvæðinu, og er um seinni bólusetningu að ræða auk bólusetningar hópa sem dregnir voru af handahóf. Á morgun er röðin komin að körlum fæddum 1982.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×