Heims­meistarar Frakka byrja á sigri þökk sé sjálfs­marki Hum­mels

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þjóðverjar beittu öllum brögðum og brellum til að stöðva Paul Pogba í leik dagsins.
Þjóðverjar beittu öllum brögðum og brellum til að stöðva Paul Pogba í leik dagsins. EPA-EFE/Matthias Hangst

Frakkland vann 1-0 sigur á Þýskalandi í síðasta leik fyrstu umferðar Evrópumótsins í knattspyrnu. Mats Hummels var skúrkur kvöldsins en sjálfsmark hans dugði Frökkum til sigurs.

Fyrir leik var var búist við hörkuleik enda um tvö hörkulið að ræða og þá fór leikurinn fram í Þýskalandi svo Þjóðverjar töldu sig eiga góða möguleika gegn heimsmeisturunum. Heimamenn byrjuðu leikinn aðeins betur en svo tóku heimsmeistararnir einfaldlega yfir. Þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum átti Paul Pogba gull af sendingu upp í vinstra hornið á vinstri bakvörðinn Lucas Hernandez.

Hernandez negldi boltanum fyrir markið í fyrsta – þaðan fór hann í legghlífina á Hummels og í þaknetið á marki Manuel Neuer. Miðvörðurinn náði ekki að koma sér í nægilega góða stöðu þar sem fyrirgjöfin var föst og endaði á að senda boltann í eigið net.

Staðan því orðin 1-0 Frakklandi í vil. Þannig var hún er flautað var til loka fyrri hálfleiks. Markið má sjá neðst í fréttinni. Undir lok fyrri hálfleiks átti sér stað undarlegt atvik.

Antonio Rüdiger og Pogba elduðu þá grátt silfur saman með þeim afleiðingum að sá fyrrnefndi virtist bíta Pogba í öxlina. Sá franski var ekki parsáttur og lét dómara leiksins alveg vita hvað honum fannst. Ekkert var hins vegar gert og sá þýski kláraði leikinn.

Síðari hálfleikurinn var einkar líflegur. Þjóðverjar gerðu sitt besta til að jafna metin en komust lítt áleiðis gegn þéttum varnarmúr franska liðsins. Á sama tíma nýtti Kylian Mbappé ógnarhraða sinn í hvert skipti sem gafst.

Endaði það tvívegis með marki, í bæði skiptin fór flaggið á endanum á loft og mörkin því dæmd af. Í fyrra skiptið lék Mbappé sjálfur inn á teig og skoraði með skoti í stöng og inn. Í seinna skiptið fékk hann frábæra sendingu frá Pogba í gegnum vörn Þýskalands, lék upp að endalínu og gaf fyrir á Karim Benzema sem skóflaði boltanum yfir línuna.

Eftir að atvikið var skoðað af myndbandsdómurum leiksins var ljóst að Mbappé var rangstæður og markið dæmt af. Ekki nóg með að tvö mörk hafi verið dæmd af Frökkum heldur þá átti Adrien Rabiot skot í stöng úr þröngu færi.

Allt kom fyrir ekki og Frakkar náðu ekki að bæta við öðru marki sínu. Ef það var ekki línuvörðurinn eða marksúlan þá var það ótrúleg tækling Hummels sem hélt Þjóðverjum inn í leiknum. Þessa mögnuðu björgun má sjá í spilaranum hér að neðan.

Þjóðverjar þurftu því aðeins eitt mark til að jafna metin þegar leið á leikinn. Þeir reyndu og reyndu en ekkert gekk upp og fögnuðu Frakkar því 1-0 sigri þegar leikurinn var loks flautaður af.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira