Fótbolti

Ronaldo fjarlægði kókið og hvatti fólk til að drekka vatn

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo á blaðamannafundinum í Búdapest í gær, aðeins með vatnsflösku fyrir framan sig.
Cristiano Ronaldo á blaðamannafundinum í Búdapest í gær, aðeins með vatnsflösku fyrir framan sig. Getty

Cristiano Ronaldo var ekki hrifinn af því að sjá tvær kókflöskur á borðinu fyrir framan sig þegar hann settist niður til að svara spurningum á blaðamannafundi Portúgals á EM í gær.

Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu hefja keppni á EM í dag með leik við Íslandsbanana í ungverska landsliðinu, í dauðariðlinum svokallaða. Þar mætast svo Frakkland og Þýskaland í stórleik í kvöld.

Ronaldo var mættur ásamt þjálfaranum Fernando Santos á blaðamannafund í gær enda skyldar UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, þátttökuþjóðirnar á EM til að senda þjálfara og fulltrúa leikmanna á slíka fundi degi fyrir hvern leik. Á þessum fundum má sjá auglýsingar frá bakhjörlum Evrópumótsins og meðal annars flöskur af Coca Cola.

Þegar Ronaldo hafði fengið sér sæti var hann fljótur til að taka kókflöskurnar og reyna að koma þeim úr mynd. Hann tók svo upp vatnsflösku og hvatti fólk til að neyta frekar vatns, eins og sjá má:

Klippa: Ronaldo fjarlægði gosið

Ronaldo, sem er orðinn 36 ára gamall og hefur fimm sinnum hreppt Gullknöttinn sem besti knattspyrnumaður heims, fylgir sjálfur ströngu mataræði og hefur áður sagst helst aðeins drekka vatn. Hann leyfi sér þó stöku sinnum að fá sér safa með morgunmatnum eða vín með kvöldmatnum.

Það var létt yfir Ronaldo á blaðamannafundi í gær fyrir fyrsta leik á EM sem er við Ungverja í dag kl. 16.Getty/Alex Livesey

Portúgalinn hefur áður lýst vanþóknun sinni á gosdrykkjum og ruslfæði. „Ég er strangur við son minn,“ sagði Ronaldo við fjölmiðla á verðlaunaafhendingu í vetur. „Stundum drekkur hann Coca Cola og Fanta og borðar flögur, og hann veit að ég kann illa við það.“

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.