Fótbolti

„Kraftaverkabræður“ frá mikið hrós fyrir að bjarga lífi Christian Eriksen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Læknarnir og bræðurnir Morten og Anders Boesen hlaupa inn að völlinn til að huga að Christian Eriksen.
Læknarnir og bræðurnir Morten og Anders Boesen hlaupa inn að völlinn til að huga að Christian Eriksen. AP/Martin Meissner

Læknarnir, sem hlupu inn á völlinn og lífguðu við Christian Eriksen, eru bræður. Þeir fá mikið hrós frá dönsku landsliðsmönnunum.

Bræðurnir Morten og Anders Boesen komu heldur betur við sögu þegar hjarta danska landsliðsmannsins Christians Eriksen hætti að slá í leik Dana og Finna á EM á laugardaginn.

Kasper Schmeichel, markvörður danska landsliðsins, talaði um „Kraftaverkabræðurna“ á blaðamannafundi í gær.

„Læknaliðið, Anders og Morten. Ég hef aldrei séð annað eins. Þeir voru svo ákveðnir, svo ískaldir undir pressu og fóru svo fagmannlega að þessu,“ sagði Kasper Schmeichel.

Hinn 47 ára gamli Morten Boesen hefur verið læknir danska landsliðsins síðan árið 2019 en yngri bróðir hans Anders, sem er 44 ára, var læknirinn á vellinum á laugardaginn.

Morten Boesen kom á undan að Eriksen eftir að dönsku leikmennirnir höfðu kallað á hjálp þegar sáu hvernig komið var fyrir Christian Eriksen.

„Við náðum honum til baka. Það er erfitt að segja hversu nálægt við vorum að missa Christian. Hann var farinn. Okkur tókst að fá hjarta hans til að slá á ný en þetta var hjartastopp,“ sagði Morten Boesen við blaðamenn en þar vildi hann gera lítið úr sínum þætti í björgun Eriksen.

Ekstra Bladet segir frá því að þeir Anders og Morten séu langt frá því að vera einu læknarnir í fjölskyldunni. Alls eru fjórir bræðir læknar og faðir þeirra er líka læknir.

„Sjúkraflutningafólkið og allir sem komu inn á völlinn til að hjálpa eru hetjur í okkar augum. Þeir gerðu allt sem þau gátu á meðan allur heimurinn horfði á. Þetta er bara kraftaverk,“ sagði Kasper Schmeichel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×