Innlent

Að­för Sam­herja eins­dæmi á Norður­löndum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Helgi Seljan, fréttamaður Kveiks, hélt erindi á málþinginu þar sem hann lýsti aðför Samherja gegn sér.
Helgi Seljan, fréttamaður Kveiks, hélt erindi á málþinginu þar sem hann lýsti aðför Samherja gegn sér. blaðamannafélag íslands

Norrænir fjölmiðlar virðast flestir kannast við hótanir, of­beldi og hatur í sinn garð, sem stórt vanda­mál. Enginn þeirra hefur þó heyrt af eins al­var­legum á­rásum fyrir­tækis á hendur fjöl­miðla­fólki og þeim sem Sam­herji réðst í eftir um­fjöllun frétta­skýringa­þáttarins Kveiks um Namibíu­málið.

Sam­herja­málið var mikið rætt á nor­rænu mál­þingi sem fór fram í dag um fjöl­miðla­frelsi á Ís­landi og hinum Norður­löndunum. Mál­þingið var haldið af Blaða­manna­fé­lagi Ís­lands í sam­starfi við nor­rænu sendi­ráðin og héldu þar ýmsir full­trúar nor­rænna blaða­manna­fé­laga erindi.

Fjandsamlegt viðhorf eins fyrirtækis eða stærra vandamál?

Þeirra á meðal var Olav Nja­astad hjá Nor­rænu blaða­manna­mið­stöðinni en að­spurður hvort hann þekkti nokkur dæmi um sam­bæri­lega fram­göngu fyrir­tækja gegn blaða­mönnum og þá sem Sam­herji hafði uppi sagði hann:

„Nei, þetta er stór­furðu­leg staða. Ég hef aldrei heyrt um neitt af þessari stærðar­gráðu.“

Olav hélt erindi sitt um fjölmiðlafrelsi í gegn um fjarfundabúnað.blaðamannafélag íslands

Helgi Seljan, blaða­maður hjá Kveik, sem var á meðal þeirra sem upp­lýstu um Sam­herja­málið hélt erindi á mál­þinginu í dag þar sem hann lýsti árásum sjávar­út­vegs­fyrir­tækisins gegn sér. 

Áður hefur verið fjallað um þær í ís­lenskum fjöl­miðlum; hvernig Sam­herji réð fyrr­verandi rann­sóknar­lög­reglu­mann til að njósna um Helga og hafa í hótunum við hann.

Þá réðst fyrir­tækið í herferð, með birtingum myndbanda sem voru ranlega sett fram sem fréttir, sem virðist helst hafa snúist um að koma ó­orði á Helga per­sónu­lega og draga starfsheiður hans og and­lega heilsu í efa. 

Nú síðast var greint frá „skæru­liða­deild Sam­herja“ svo­kallaðri sem rak á­róðurs­stríðið fyrir fyrir­tækið en í því teymi voru ráð­gjafar og lög­fræðingar fyrir­tækisins auk sjó­manns nokkurs sem var notaður sem leppur fyrir ýmis greina­skrif. Ljóst er að for­stjórar Sam­herja áttu í miklum sam­skiptum við þetta teymi og stjórnuðu því efni sem kom  frá því.

Olav Nja­astad velti því fyrir sér hvort þessi fram­ganga væri hluti af stærra vanda­máli á Ís­landi eða hvort hún væri að­eins lýsandi fyrir fjand­sam­legt við­horf þessa til­tekna fyrir­tækis til fjöl­miðla.

Hér má finna upptöku af málþinginu í heild sinni.

Kannast öll við hótanir og hatursorðræðu

Aðrir full­trúar nor­rænna fjöl­miðla könnuðust heldur ekki við annað eins frá sínum heima­löndum. Ul­rika Hyllert, for­maður Blaða­manna­fé­lags Sví­þjóðar og for­seti Nor­rænu Blaða­manna­sam­takanna, sagðist reyndar muna eftir einu dæmi um að blaða­maður á héraðs­blaði í Sví­þjóð hafi verið hrakinn úr starfi eftir að hafa fjallað á gagn­rýninn hátt um stjórn­mála­menn og spillingu. Einn stjórn­mála­flokkanna hafði þá ítök á blaðinu sem hún vann hjá.

Jón Brian Hvid­t­felt, for­maður Blaða­manna­fé­lags Fær­eyja, og Maria Pet­ters­son, rit­stjóri Journa­listi, blaðs finnsku blaða­manna­sam­takanna, sögðu þá að hatur­s­orð­ræða, hótanir, of­beldi og al­mennt hatur í garð fjöl­miðla við­gengist í sínum löndum en þekktu þó ekki eins al­var­leg dæmi og á­rásir Sam­herja á fjöl­miðla­menn.

Fulltrúar Morgunblaðsins afþökkuðu boð um þátttöku á málþinginu.blaðamannafélag íslands

Rekstrar­um­hverfi fjöl­miðla var einnig rætt á mál­þinginu og héldu rit­stjórarnir Þórður Snær Júlíus­son hjá Kjarnanum, Jón Þóris­son hjá Frétta­blaðinu og Þórir Guð­munds­son hjá frétta­stofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar, erindi. 

Full­trúum Morgun­blaðsins, elsta dag­blaðs landsins, var boðið að sækja mál­þingið en höfðu ekki á­huga á því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×