Innlent

Erfiðari gönguleiðin opin í dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fólki er bent á að auðveldara sé að ganga inn í Nátthaga, þar sem hraunið streymir niður í dalinn.
Fólki er bent á að auðveldara sé að ganga inn í Nátthaga, þar sem hraunið streymir niður í dalinn. Vísir/Vilhelm

Önnur gönguleiðin að gosstöðvunum í Geldingadölum verður opin almenningi í dag, en þær voru báðar lokaðar í gær eftir að hraun tók að streyma yfir aðra þeirra. Leiðin er lengri og talsvert erfiðari yfirferðar, að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns á Suðurnesjum.

Svokölluðum gönguleiðum A og B upp að gosstöðvunum í Geldingadölum var lokað í gær eftir að hraun rann yfir hluta gönguleiðar A. Verið er að leggja nýja gönguleið að gosstöðvunum en þangað til verður leið B opin almenningi.

„Við munum loka fyrir streymi fólks að gönguleið A, þar sem við teljum hugsanlega geta komið hraunstreymi þar niður. Gönguleið B, þó hún sé torfarnari og aðeins lengri, þá er hún stikuð frá því í vor. Á versta kaflanum er enn kaðall til handstyrkingar fyrir fólk sem fer þar en samt verð ég segja að gönguleið B er meira fyrir vant göngufólk,” segir Gunnar.

Leið B sé bæði lengri og hækkunin meiri.

„Hún er erfiðari og við sáum það í vor, reyndar í vetraraðstæðum, að fólk átti erfiðara með þetta. Það áttu sér stað óhöpp, gönguhnjask og fólk var að snúa sig og detta og þar fram eftir götunum.”

Það sé hins vegar ekki síðra sjónarspil að fylgjast með hrauntaumnum renna niður í Nátthaga, þangað sem auðveldara er að ganga. „Fyrir þá sem treysta sér ekki í svona göngu en vilja komast að gosstöðvunum er hægt að benda á að það er töluverð upplifun að ganga inn í Nátthaga, þars em hraunið streymir niður í dalinn,” segir Gunnar.

Frekari ákvarðanir verði teknar dag frá degi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×