Erlent

Faraldurinn virðist í rénun... í bili

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þátttaka í bólusetningum í Bandaríkjunum er afar mismunandi milli ríkja og svæða.
Þátttaka í bólusetningum í Bandaríkjunum er afar mismunandi milli ríkja og svæða. epa/Justin Lane

Kórónuveirufaraldurinn virðist nú í rénun víðast hvar í Bandaríkjunum en sérfræðingar eru engu að síður uggandi vegna þess hversu margir hyggjast ekki ætla að þiggja bólusetningu.

Sjö daga meðaltal Covid-19 greininga féll úr 21 þúsund tilfellum 29. maí í 14 þúsund 13. júní, þrátt fyrir að mörg ríki hafi á sama tíma dregið úr sóttvarnaaðgerðum.

Tilfellum hefur fjölgað í aðeins átta ríkjum; Alabama, Arkansas, Hawaii, Missouri, Nevada, Texas, Utah og Wyoming. Í öllum ríkjunum, fyrir utan Hawaii, hafa færri íbúar þegið bólusetningu en að meðaltali á landsvísu.

Í þeim tíu ríkjum þar sem tilfellum hefur fjölgað minnst eru fleiri fullbólusettir en að meðaltali á landsvísu. Meðal þessara ríkja eru þau þrjú ríki þar sem flestir hafa verið bólusettir; Vermont, Massachusetts og Connecticut.

Sérfræðingar segja margt spila inn í fækkun tilfelli, til dæmis aukinn fjölda bólusettra, náttúrulegt ónæmi vegna fyrri sýkinga, heitara veður og sú staðreynd að fólk ver nú auknum tíma utandyra.

Þeir segja hins vegar alls óvíst að ástandið breytist ekki í haust eða vetur, ekki síst vegna nýrra afbrigða sem kunna að verða meira smitandi. Þá geti faraldurinn auðveldlega blossað upp meðal þeirra sem ekki hafa verið bólusettir.

Í Mississippi hafa til að mynda aðeins 28 prósent íbúa verið bólusett, samanborið við 43 prósent á landsvísu, að meðaltali.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×