Í Facebook-hópnum Volcanoes birtir maðurinn færslu þar sem hann segist vera umræddur maður, auk þess sem hann lætur fylgja með myndband til sönnunar. Hann hefur einnig birt það á Instagram-eins og sjá má hér að neðan.
„Halló öll. Ég er brjálæðingurinn úr íslenskum fréttum sem fór upp að gígnum, til þess eins að hlaupa niður þegar straumur hrauns fór af stað,“ skrifar Reynolds, sem samkvæmt upplýsingum á samfélagsmiðlum er frá Bandaríkjunum.
Í færslunni virðist hann þá hvetja fólk til að skamma sig fyrir þetta athæfi sitt. Margir meðlima hópsins hafa gert einmitt það og sagt athæfi Reynolds einkar óábyrgt og heimskulegt. Þá segja mörg að hann sé einfaldlega heppinn að vera á lífi.
Myndband af manninum ganga upp á gíginn, og síðar hlaupa niður þegar hraunið tók að renna, náðist á vefmyndavél mbl af gosinu. Það má sjá hér að neðan.