Íslenski boltinn

„Búnir að bíða lengi eftir þessu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tristan Freyr bjó til bæði mörk Stjörnumanna í dag.
Tristan Freyr bjó til bæði mörk Stjörnumanna í dag. Vísir/Elín Björg

Tristan Freyr Ingólfsson átti lykilþátt í sigri Stjörnunnar og Vals er fyrrnefnda liðið vann 2-1 sigur í Garðabæ síðdegis. Um er að ræða fyrsta sigur Garðbæinga í sumar.

„Þetta er bara hrikalega sterkt og við erum búnir að bíða lengi eftir þessu. Að gera þetta á móti efsta liðinu er extra sætt. sagði Tristan um leikinn og bætti við:

„Þetta var bara samvinna og leikgleði, held ég, sem skilar þessu. Það er búið að vera smá basl svo þetta er bara geggjað. bætir hann við.“

Stjarnan var 1-0 undir í hálfleik í leiknum en liðið kom af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn. Aðeins sex mínútur voru liðnar af honum þegar staðan var orðin 2-1. Hver voru skilaboð Þorvalds Örlygssonar, þjálfara, í leikhléinu?

„Það var bara að mæta þeim af krafti, við vorum búnir að falla full neðarlega. Þannig að við bara mættum þeim af krafti og nýttum færin okkar.“ segir Tristan.

Tristan Freyr vann boltann ofarlega á vinstri kantinum og fann samherja með góðri fyrirgjöf í báðum mörkum Stjörnunnar. Um eigin frammistöðu vill hann þó fátt segja.

„Ég er bara mjög ánægður en bara allt liðið stóð sig frábærlega. Við erum þéttir varnarlega, með frábæra vörn og markmann.“ segir Tristan en vörnin auk markvarðarins Haraldar Björnssonar, eiga hrós skilið fyrir að standa þétt gegn árásum Valsmanna í síðari hálfleiknum.

Um framhaldið segir Tristan: „Þetta kveikir algjörlega á okkur og við ætlum okkur að vinna næsta leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×