Erlent

Ung­lings­stúlkan sem tók upp morðið á Floyd fær Pulitzer-verð­laun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Darnella Frazier, sem er hér með símann á lofti, hefur fengið sérstök Pulitzer-verðlaun fyrir myndbandsupptökuna af dauða George Floyd.
Darnella Frazier, sem er hér með símann á lofti, hefur fengið sérstök Pulitzer-verðlaun fyrir myndbandsupptökuna af dauða George Floyd. Vísir

Unglingsstúlkan sem tók morðið á George Floyd upp á myndband hefur hlotið sérstök blaðamannaverðlaun frá stjórn hinna virtu Pulitzer verðlauna. Darnella Frazier, sem nú er átján ára gömul, hlaut verðlaunin vegna hugrekkisins sem hún sýndi að sögn Pulitzer-nefndarinnar.

Eins og er kannski orðið víðþekkt þá varð það myndbandið sem Frazier tók upp sem vakti helst athyglina á dauða Floyd, en hann var myrtur af hvítum lögreglumanni fyrir rúmu ári síðan í Minneapolis í Bandaríkjunum. Á myndbandinu má heyra Floyd biðja fyrir lífi sínu og kalla á lögreglumennina að hann geti ekki andað. Þá sést lögreglan krjúpa á hálsi Floyds þar til hann hættir að hreyfa sig.

Myndbandsupptakan fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og vakti mikla reiði. Í kjölfarið fór af stað mótmælaalda, vegna kynþáttabundins misréttis og ofbeldis, um allan heim. Þá var myndbandsupptakan helsta sönnunargagnið í dómsmálinu sem varð til þess að Derek Chauvin, lögreglumaðurinn sem kraup lengst á hálsi Floyds, var sakfelldur fyrir morð.

Dauði George Floyd leiddi til mótmælaöldu um allan heim vegna lögregluofbeldis og kynþáttabundnu misrétti.Getty/Scott Olson

Pulitzer-verðlaunin eru virtustu blaðamannaverðlaun Bandaríkjanna. Að sögn Pulitzer-nefndarinnar ákvað hún að veita Frazier þessi sérstöku verðlaun vegna „hugrekkisins sem það tók til að mynda morðið á George Floyd, myndband sem varð kveikjan að mótmælum gegn ofbeldi af hendi lögreglu um allan heim.“ Þá hafi hún einmitt sýnt hvað „almennir borgarar spila mikilvæg hlutverk í leit blaðamanna að sannleika og réttlæti.“

Frazier varð vitni að morðinu á Floyd þegar hún var á göngu með frændsystkini sínu i Minneapolis þann 25. maí í fyrra. Hún bar vitni fyrir dómi fyrr á þessu ári og sagðist hún hafa hafið upptökuna á símanum sínum vegna þess að: „Ég sá mann sem var dauðhræddur og bað fyrir lífi sínu.“

„Ég heyrði hann segja „ég get ekki andað.“ Hann var dauðhræddur, hann kallaði á móður sína.“

Í dómsmálinu gegn Chauvin greindi hún frá því að atvikið hafi breytt lífi hennar.

„Þegar ég horfi á George Floyd horfi ég á pabba minn, ég horfi á bróður minn, frændur mína – vegna þess að þeir eru allir svartir,“ sagði hún og grét. „Og ég hugsa um það hvernig þetta hefði getað verið einn þeirra.“


Tengdar fréttir

Krefst þrjá­tíu ára fangelsis­dóms yfir Chau­vin

Saksóknari í Bandaríkjunum hefur krafist þess að Derek Chauvin, lögreglumaðurinn fyrrverandi sem sakfelldur var fyrir að hafa orðið hinum 46 ára George Floyd að bana í Minneapolis í maí á síðasta ári, verði dæmdur í þrjátíu ára fangelsi.

Fjórir lögreglumenn ákærðir vegna dauða Floyd

Alríkisákærudómstóll í Bandaríkjunum hefur gefið út ákæru á hendur fjórum fyrrverandi lögreglumönnum vegna dauða Georges Floyd í Minneapolis í fyrra. Fjórmenningarnir eru sakaðir um að hafa vísvitandi brotið á borgararéttindum Floyd þegar þeir handtóku hann.

Þurfa að brjóta upp rótgróið kerfi mismununar

Derek Chauvin, fyrrverandi lögregluþjónn, var sakfelldur fyrir morðið á Bandaríkjamanninum George Floyd í gærkvöldi. Kviðdómurinn ákvað að sakfella Chauvin fyrir alla ákæruliði en hámarksrefsing fyrir brotin er fjörutíu ára fangelsi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.