Eins og er kannski orðið víðþekkt þá varð það myndbandið sem Frazier tók upp sem vakti helst athyglina á dauða Floyd, en hann var myrtur af hvítum lögreglumanni fyrir rúmu ári síðan í Minneapolis í Bandaríkjunum. Á myndbandinu má heyra Floyd biðja fyrir lífi sínu og kalla á lögreglumennina að hann geti ekki andað. Þá sést lögreglan krjúpa á hálsi Floyds þar til hann hættir að hreyfa sig.
Myndbandsupptakan fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og vakti mikla reiði. Í kjölfarið fór af stað mótmælaalda, vegna kynþáttabundins misréttis og ofbeldis, um allan heim. Þá var myndbandsupptakan helsta sönnunargagnið í dómsmálinu sem varð til þess að Derek Chauvin, lögreglumaðurinn sem kraup lengst á hálsi Floyds, var sakfelldur fyrir morð.

Pulitzer-verðlaunin eru virtustu blaðamannaverðlaun Bandaríkjanna. Að sögn Pulitzer-nefndarinnar ákvað hún að veita Frazier þessi sérstöku verðlaun vegna „hugrekkisins sem það tók til að mynda morðið á George Floyd, myndband sem varð kveikjan að mótmælum gegn ofbeldi af hendi lögreglu um allan heim.“ Þá hafi hún einmitt sýnt hvað „almennir borgarar spila mikilvæg hlutverk í leit blaðamanna að sannleika og réttlæti.“
Frazier varð vitni að morðinu á Floyd þegar hún var á göngu með frændsystkini sínu i Minneapolis þann 25. maí í fyrra. Hún bar vitni fyrir dómi fyrr á þessu ári og sagðist hún hafa hafið upptökuna á símanum sínum vegna þess að: „Ég sá mann sem var dauðhræddur og bað fyrir lífi sínu.“
„Ég heyrði hann segja „ég get ekki andað.“ Hann var dauðhræddur, hann kallaði á móður sína.“
Í dómsmálinu gegn Chauvin greindi hún frá því að atvikið hafi breytt lífi hennar.
„Þegar ég horfi á George Floyd horfi ég á pabba minn, ég horfi á bróður minn, frændur mína – vegna þess að þeir eru allir svartir,“ sagði hún og grét. „Og ég hugsa um það hvernig þetta hefði getað verið einn þeirra.“