Erlent

Fyrirskipa förgun tuga milljóna skammta af bóluefni Janssen

Árni Sæberg skrifar
Þetta glas bóluefnis er líklega ekki framleitt af Emergent BioSolutions.EFE/ETIENNE LAURENT
Þetta glas bóluefnis er líklega ekki framleitt af Emergent BioSolutions.EFE/ETIENNE LAURENT

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur fyrirskipað að fyrirtækið sem framleiðir bóluefni fyrir Janssen í Bandaríkjunum skuli farga fleiri milljónum skammta. 

Fyrirtækið Emergent BioSolutions í Baltimore er eitt þeirra fjölmarga fyrirtækja sem framleiða bóluefni Janssen í Bandaríkjunum. Sökum slæmra aðstæðna í vinnslu fyrirtækisins hefur það ekki getað framleitt neitt bóluefni í átta vikur. 

Þegar framleiðsla í vinnslunni var stöðvuð var þar að finna ógrynni bóluefnis sem mátti ekki hefja dreifingu á. Nú hefur lyfjaeftirlit Bandaríkjanna ákveðið að dreifa megi bóluefni úr tveimur framleiðslulotum. 

Bóluefnið sem má dreifa dugar í um tíu milljónir skammta. Samkvæmt heimildum AP fréttaveitunnar hefði bóluefnið, hverju þarf að farga, dugað í margfalt fleiri skammta.  

Óþrifnaður og illa þjálfað starfsfólk rót vandans

Útsendarar lyfjaeftirlits Bandaríkjanna gerðu úttekt á vinnslustöð Emergent BioSolutions fyrir tveimur mánuðum þegar fyrst kom upp að spilliefni hefðu borist í bóluefni vinnslunnar. Skoðuðu þeir meðal annars myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum vinnslunnar.

Niðurstöður úttektarinnar voru þær að starsfólk vinnslunnar væri ekki nægilega vel þjálfað og færi óvarlega með hráefni sem notað er við framleiðslu bóluefna. Þá kom einnig fram að vinnslan stæðist ekki kröfur eftirlitsins um þrifnað.

Emergent BioSolutions hefur áður gerst brotlegt gegn reglum lyfjaeftirlitsins. Brotasaga fyrirtækisins inniheldur, meðal annars, mygluvandamál, skítuga veggi, illa þjálfað starsfólk og lélegar viðbragðsáætlanir. Þrátt fyrir slæma sögu, gerði ríkisstjórn Donalds Trump samt sem áður arðbæra samninga um bóluefnaframleiðslu við fyrirtækið.

Íslendingar geta andað léttar

Enn sem komið er hefur ekkert af bóluefni Janssen sem framleitt er af Emergent BioSolutions verið flutt út fyrir Bandaríkin. Því er ljóst að hinn svokallaði Janssenskjálfti sem hrjáir margan Íslendinginn um þessar mundir orsakast ekki af óþrifnaði við framleiðslu bóluefnis.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.