Fótbolti

Hallbera á bekknum á móti Írum og Áslaug Munda byrjar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blikinn Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir byrjar gegn Írum.
Blikinn Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir byrjar gegn Írum. getty/Gabriele Maltinti

Þorsteinn Halldórsson hefur tilkynnt byrjunarlið Íslands fyrir vináttulandsleikinn gegn Írlandi í dag.

Dagný Brynjarsdóttir, sem missti af leikjunum gegn Ítalíu í apríl og hefur ekki spilað fyrir landsliðið í níu mánuði, kemur inn í byrjunarliðið og er á miðjunni ásamt Alexöndru Jóhannsdóttur og fyrirliðanum Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, sem er nýorðin tvítug, er í stöðu vinstri bakvarðar í stað Hallberu Gísladóttur, reyndasta leikmannsins í íslenska hópnum. Áslaug Munda leikur sinn fimmta landsleik í dag.

Ingibjörg Sigurðardóttir, sem missti af Ítalíuleikjunum líkt og Dagný, stendur vaktina í miðri vörninni ásamt Glódísi Perlu Viggósdóttur sem leikur sinn 92. landsleik í dag. Elísa Viðarsdóttir er í stöðu hægri bakvarðar í sínum fertugasta landsleik. Sandra Sigurðardóttir stendur svo á milli stanganna.

Elín Metta Jensen skoraði ekki í fyrstu fjórum leikjum Valsliðsins en hefur skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum og er í byrjunarliðinu í dag. Sveindís Jane Jónsdóttir sem byrjaði mjög vel í Svíþjóð en meiddist svo þarf að sætta sig við það að byrja á varamannabekknum. 

Nýkrýndur Þýskalandsmeistari, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, og markahæsti íslenski leikmaðurinn í Pepsi Max deildar kvenna, Agla María Albertsdóttir, byrja frammi með Elínu Mettu. Glódís Perla, Alexandra, Karólína Lea og Gunnhildur Yrsa hafa byrjað alla þrjá leikina undir stjórn Þorsteins.

Ísland og Írland mætast aftur á þriðjudaginn. Þetta eru síðustu leikir íslenska liðsins fyrir undankeppni HM sem hefst í haust.

Leikur Íslands og Írlands hefst klukkan 17:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.