Innlent

Hringdi í Hótel Flatey í leit að leigubíl

Árni Sæberg skrifar
Hingað er ekki vænlegt að hringja eftir bíl í miðbæ Reykjavíkur.
Hingað er ekki vænlegt að hringja eftir bíl í miðbæ Reykjavíkur. Hótel Flatey

Starfsmanni Hótels Flateyjar brá heldur í brún á dögunum þegar hringt var í hann og beðið um „bíl á Dillon“

Pétur Oddbergur vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið þegar ölvuð kona hringdi í móttöku Hótels Flateyjar í leit að leigubíl. Pétur Oddbergur tjáði konunni að það „gæti verið flókið mál“ enda væri hún að tala við hótelstarfsmann en ekki símaver leigubílastöðvar. 

Þá brást konan ókvæða við en brátt kom í ljós að reiði hennar var ekki beint að starfsmanninum. Kom í ljós að hrekkjalómur leyndist í vinahóp konunnar. Sá hafði séð sér leik á borði og slegið inn símanúmer Hótels Flateyjar, þegar konan hafði beðið hann að slá inn símanúmer leigubílastöðvar.

Pétur Oddbergur segir símtalið hafa lífgað upp á kvöldið. Þó vonar hann að slíkir hrekkir verði ekki daglegt brauð eftir fréttaflutning af atvikinu, enda hafi starfsmenn hótelsins í nægu að snúast þessa dagana.

Stefnir í gott sumar á Flatey

Aðspurður segir Pétur Oddbergur allt stefna í gott sumar á Hótel Flatey. Allt sé uppbókað um helgina og bókunarstaðan sé góð út sumarið.

Erlendir ferðamenn eru byrjaðir að streyma til Flateyjar en þar ber hæst á hópum sem freista þess að skoða fjölbreytt fuglalíf eyjunnar.

Pétur Oddbergur segist ekki hafa teljandi áhyggjur af því að Sæferðir, fyrirtækið sem gerir út ferjuna Baldur til Flateyjar, hafi fækkað ferðum úr tveimur í eina á dag. Langflestir kjósi hvort sem er að verja nótt á eyjunni og Baldur rúmi fleiri en hótelið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.