Innlent

Maðurinn enn ó­fundinn og for­eldrar kalla eftir eftir­lits­mynda­vélum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ragnar Örn Óttósson, faðir sjö ára stúlku sem brást hetjulega við þegar maður reyndi að nema hana á brott á leikvelli í Grafarvogi í gærkvöldi, vill að eftirlitsmyndavélum verði komið fyrir á leikvöllum í borginni. 
Ragnar Örn Óttósson, faðir sjö ára stúlku sem brást hetjulega við þegar maður reyndi að nema hana á brott á leikvelli í Grafarvogi í gærkvöldi, vill að eftirlitsmyndavélum verði komið fyrir á leikvöllum í borginni.  VÍSIR/ARNAR

Faðir sjö ára stúlku, sem brást hetjulega við þegar maður reyndi að nema hana á brott á leikvelli í Grafarvogi í gærkvöldi, vill að eftirlitsmyndavélum verði komið fyrir á leikvöllum í borginni.

Stúlkan sem er sjö ára var á leikvelli í Funafold með bróður sínum og vinkonu þegar atvikið átti sér stað. Ragnar Örn, faðir stúlkunnar, var að vinna á dráttarvél í bakgarði í næsta húsi.

„Þegar ég er að bakka vélinni út úr garðinum sé ég skelfingarsvip á húsráðanda, vini mínum, og þá hafði barnið komið til baka grátandi,“ segir Ragnar Örn Ottósson, faðir stúlkunnar. 

Vinkonan og litli bróðirinn höfðu brugðið sér inn til að fara á klósettið og í sömu andrá hafi maður nálgast dóttur hans. 

„Hann segir við hana heyrðu viltu ekki koma og sjá hundinn minn. Hún segir nei ég er ekki að fara með þér. Við höfum kennt henni að fara ekki með neinum. Hann grípur þá utan um hana og lyftir henni upp og heldur henni þéttingsfast,“ segir Ragnar. Stúlkan hafi þá brugðist hárrétt við.

Leikvöllurinn er í Funafold í Grafarvogi. VÍSIR/ARNAR

„Reiðisöskur og grátur og svo gefur hún honum hnéspark í punginn,“ segir Ragnar. Manninum hafi brugðið við og hlaupið á brott. 

Leit að manninum fór strax af stað og lögreglu bar að garði. Stúlkan gat gefið góða lýsingu á manninum; hann var dökkhærður, klæddur grárri peysu og gráum íþróttabuxum.

Ragnar biðlar til nágranna á svæðinu að kanna hvort atvikið hafi mögulega náðst á eftirlitsmyndavélum. Hann furðar sig á því að það sé ekki að minnsta kosti ein myndavél við hvern leikvöll.

„Eins og á bensínstöðinni Olís, þar eru örugglega átta myndavélar. Er þetta ekki það sem við viljum sjá: öruggt svæði og netmyndavél sem er þá kannski hægt að glugga í eftir á,“ segir Ragnar. 

Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.Vísir/Arnar

Málið er til rannsóknar hjá lögreglu en maðurinn hefur ekki fundist. 

Dóttur Ragnars líður ágætlega og segir hann fjölskylduna hafa lagt áherslu á að hrósa henni fyrir að standa sig vel í erfiðum aðstæðum.

„Ég er rosalega stoltur af dóttur minni,“ segir Ragnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.