Innlent

„Við af­greiðum svona mál innan­húss í Sjálf­stæðis­flokknum“

Snorri Másson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fór mikinn í ræðu á kosningavöku um helgina, en er ekki áhugasamur um að rekja efni ræðunnar nánar.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fór mikinn í ræðu á kosningavöku um helgina, en er ekki áhugasamur um að rekja efni ræðunnar nánar. Vísir/Vilhelm

„Það væri lítið varið í prófkjör ef það væri ekkert kapp í fólki sem er að bjóða sig fram,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um nýafstaðið prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík, þar sem hann bar sigur úr býtum.

Myndband af sigurræðu Guðlaugs hefur vakið athygli, þar sem hann sagði sigur sinn upphaf að því sem koma skyldi en ræddi einnig mótlætið sem hann hafi mætt. Sigurinn hafi ekki verið auðsóttur enda hefðu einhverjir beitt sér gegn honum.

„Þið sáuð til þess að allir þeir sem unnu gegn því, að þeir töpuðu,“ sagði Guðlaugur innblásinn við stuðningsmenn sína eftir sigurinn.

Guðlaugur er fáorður, en glaður í bragði, þegar hann er inntur eftir nánari skýringum á ummælum sínum á kosningavökunni.

„Án þess að ég fari eitthvað nánar út í það, liggur það alveg fyrir hver úrslitin eru. Það er ekki mikið meira um það að segja. Það er augljóst að ég bar sigur úr býtum í þessu prófkjöri. Þeir sem vildu ekki að ég yrði þar, þeir biðu lægri hlut.

Við afgreiðum svona mál innanhúss í Sjálfstæðisflokknum. Það liggur alveg fyrir hver úrslitin eru og ég er mjög ánægður með þau og þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við fréttastofu eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Fólk tjáir sig með alls konar hætti“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir segist ekki hafa neitt um ummæli Guðlaugs Þórs að segja en leggur áherslu á að hún ein hafi verið í framboði en ekki einhver hópur.

„Fólk tjáir sig með alls konar hætti að loknum sigri. Ég ætla ekki að tjá mig meira um það,“ segir Áslaug.

Bjarni Benediktsson kveðst ekki heldur þekkja nákvæmlega til hvers Guðlaugur var að vísa en sagði að þetta væru orð sem hefðu verið látin falla í hita leiksins.

„Ég er bara ánægður með heildarbraginn á þessu prófkjöri þó að það hafi verið spenna svona undir lokin,“ sagði Bjarni.

Bjarni taldi helst að Guðlaugur kynni að vera vísa til þess að hann ætti tilkall til oddvitasætisins vegna þess að það væri komið að honum í goggunarröðinni.

„Síðast þegar við héldum prófkjör í Reykjavík nutum við þess að hafa Ólöfu Nordal með okkur. Við höfum gengið til kosninga í millitíðinni og við höfum stillt upp listum þannig að við erum með tvö kjördæmi í Reykjavík og það hafa verið tveir oddvitar. En Guðlaugur var samt sem áður á eftir Ólöfu í síðasta prófkjöri.

Kannski er verið að vísa til þess að hann hafi verið efstur í goggunarröðinni ef svo mætti að orði komast. En þetta eru orð sögð í hita leiksins og ég finn ekki annað en að í þingliðinu okkar ætli menn að snúa bökum saman og sækja fram sem ein öflug heild,“ sagði Bjarni.

Bjarni Benediktsson var í viðtali hjá Stöð 2 um málið eftir ríkisstjórnarfund í dag.


Tengdar fréttir

Bjarni um Guðlaug: „Orð sögð í hita leiksins“

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur skilning á að mönnum hlaupi kapp í kinn í prófkjörsbaráttu, eins og raunin varð með Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra á sigurfögnuði um helgina.

Baráttan bara rétt að byrja

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem sigraði í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, er gríðaránægður með niðurstöðuna. Hann segir kosningu Diljár Mistar Einarsdóttur aðstoðarmanns síns eftirtektarverða - og þá sé spenna milli framboðs hans og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að baki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×