Innlent

Ekkert bendir til netárásar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Guðmundur segir áhrif bilunarinnar áhyggjuefni. Mikilvægt sé að setja ekki öll eggin í sömu körfu.
Guðmundur segir áhrif bilunarinnar áhyggjuefni. Mikilvægt sé að setja ekki öll eggin í sömu körfu. Vísir/Samsett

Bilun hjá fyrirtækinu Fastly olli því að mikill fjöldi vefsíðna lá niðri um heim allan í morgun. Forstöðumaður netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunnar segir bilunina áhyggjuefni.

Mörgum var eflaust brugðið í morgun þegar þeir ætluðu að lesa fréttir breska ríkisútvarpsins, horfa á streymi á Twitch eða versla á Amazon enda lágu vefsíðurnar niðri, líkt og gríðarlegur fjöldi annarra.

Vefsíðurnar eru nú flestar komnar upp á nýjan leik en svo virðist sem bilun hjá fyrirtækinu Fastly, svokallaðri framendaspeglunarþjónustu, hafi orðið til þess að vefsíðurnar hafi ekki getað náð í efnið sem þær eiga að veita.

Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS, netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar, segir fjölmargar stórar vefsíður á heimsvísu nýta sér þjónustu Fastly.

Viðbrögðin við árás væru allt önnur

„Það er ekkert sem bendir til þess að um árás sé að ræða. Fastly hafa látið vita hver staðan er og tilkynntu á Reddit rétt fyrir klukkan 11 að þeir hafi fundið út úr því hver bilunin er og væru að innleiða úrlausn á þeirri bilun,“ segir Guðmundur. 

Viðbrögðin væru önnur ef árás hefði valdið röskuninni. Hann segir þó áhyggjuefni að bilun hjá einu fyrirtæki valdi svona miklum truflunum á heimsvísu.

„Það er mikilvægt fyrir þá sem eru að sinna framendaþjónustu á vefnum og eru með þessi þjónustuframboð á internetinu að ef vefsíðan er að notfæra sér framspeglunarþjónustu, eins og Fastly býður upp á, að hugsa um umfremdina, eða redundancy. Þetta gamla góða með að setja ekki öll eggin í sömu körfuna,“ segir Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.