Fótbolti

Töpuðu dramatískum úrslitaleik eftir sigurinn á Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Christian Pulisic lyftir verðlaunagripnum eftir sigurinn í Þjóðadeildinni.
Christian Pulisic lyftir verðlaunagripnum eftir sigurinn í Þjóðadeildinni. Getty/Omar Vega

Bandaríkin unnu dramatískan sigur á Mexíkó í framlengdum úrslitaleik fyrstu útgáfunnar af Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku í nótt.

Það var Christian Pulisic, nýkrýndur Evrópumeistari með Chelsea, sem reyndist önnur af hetjum Bandaríkjanna en hann fiskaði vítaspyrnu í framlengingunni og skoraði úr henni sigurmarkið. 

Mexíkó fékk vítaspyrnu í blálok framlengingarinnar og gat jafnað metin en Ethan Horvath varði spyrnu Andrésar Guardado.

Mexíkó, sem vann Ísland 2-1 í vináttulandsleik á dögunum, komst tvívegis yfir í úrslitaleiknum gegn Bandaríkjunum. Jesús Corona skoraði á fyrstu mínútu en Gio Reyna jafnaði metin með skalla.

Á 79. mínútu skoraði Diego Lainez, kantmaður Real Betis, með föstu skoti en Juventus-maðurinn Weston McKennie jafnaði metin aðeins þremur mínútum síðar og tryggði Bandaríkjunum framlengingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×