Erlent

Wolf í bann á Twitter fyrir að dreifa rangfærslum um bóluefni

Kjartan Kjartansson skrifar
Naomi Wolf virðist hafa orðið samsæriskenningum um bóluefni að bráð í seinni tíð.
Naomi Wolf virðist hafa orðið samsæriskenningum um bóluefni að bráð í seinni tíð. Vísir/Getty

Samfélagsmiðillinn Twitter setti bandaríska rithöfundinn Naomi Wolf í tímabundið bann fyrir að brjóta notendaskilmála með því dreifa ítrekað rangfærslum um bóluefni. Wolf, sem varð fyrst þekkt fyrir feminísk skrif, hefur deilt framandlegum samsæriskenningum um bóluefni trekk í trekk.

Stjarna Wolf hefur fallið verulega undanfarin ár en hún skaust fyrst upp á stjörnuhimininn með bók sinni „Fegurðargoðsögninni“ sem hefur verið kennd við þriðju bylgju femínisma sem kom út árið 1990. 

Bandarískur útgefandi Wolf hætti við að gefa út bók eftir hana árið 2019 eftir að í ljós kom að hún virtist hafa misskilið í grundvallaratriðum enskan lagabálk frá 19. öld sem bókin byggði meðal annars á.

Undanfarna mánuði hefur Wolf svo deilt sífellt furðulegri kenningum um bóluefni á samfélagsmiðlum. Hún hefur tíst um að bóluefni séu „hugbúnaður sem getur tekið við gagnasendingum“ og líkt Anthony Fauci, helsta sóttvarnasérfræðingi Bandaríkjanna, við djöfulinn, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Nú síðast tísti Wolf um að skilja þyrfti þvag og saur fólks sem hefur verið bólusett frá öðru skólpi á meðan áhrif þess á óbólusett fólk með drykkjavatni væru rannsökuð.

Sumir samfélagsmiðlanotendur hafa sakað Twitter um ritskoðunartilburði með banni Wolf. Aðrir fagna því á móti að vera lausir við stoðlausar samsæriskenningar hennar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.