Fótbolti

Fegnir að hafa unnið leikinn en erum alls ekki sáttir við spila­mennskuna í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari. EPA-EFE/Friedemann Vogel

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var sáttur með 1-0 sigur Íslands í Færeyjum í kvöld en einkar ósáttur með frammistöðuna. Þá hrósaði hann eldri leikmönnum liðsins í hástert.

„Í fyrsta lagi erum við fegnir að hafa unnið leikinn, það er í raun það sem stendur upp úr. Við erum alls ekki sáttir við spilamennskuna í dag. Færeyingar eiga samt hrós skilið fyrir sinn leik. Við einhvern veginn náðum aldrei að komast í almennilegan takt, vorum seinir í einvígi, náðum ekki að vinna annan eða þriðja bolta. Náðum í raun aldrei að setja pressu á þeirra lið,“ sagði Arnar Þór um leik kvöldsins.

„Svo þegar við vorum með boltann þá voru þeir mjög grimmir og þeir eiga einfaldlega mikið hrós skilið fyrir sinn leik.“

„Við erum fegnir að hafa náð í úrslit þó frammistaðan hafi ekki verið góð. Frammistaðan gegn Mexíkó var mjög góð en við náðum ekki í úrslit. Frammistaðan var ekki góð en við sýndum seiglu, töku það með okkur. Svo var ég mjög ánægður með markið sem við skoruðum.“

Aðspurður hvort eitthvað í leik heimamanna hefði komið íslenska liðinu á óvart sagði Arnar Þór að svo hefði ekki verið.

„Færeyingar hafa verið að þróa leik sinn undanfarið eitt og hálft ár. Fengu sænskan þjálfara [Håcan Ericson] sem hefur verið að þróa leikstíl þeirra. Þeir pressa hátt, vilja halda boltanum og hafa spilað svona undanfarið. Við vorum búnir að leikgreina það svo það var ekkert sem kom okkur á óvart.“

„Ég tel að þetta hafi aðallega verið spennufall. Við vorum að koma frá Dallas þar sem við vorum að spila við Mexíkó sem er í 11. sæti heimslistans. Erum með mikið af ungum leikmönnum og vorum að spila á mögulega einum flottasta leikvangi í heiminum með 40 þúsund manns í stúkunni. Þaðan förum við til Færeyja þar sem eru engir áhorfendur. Ég tel að það hafi komið mönnum á óvart. Við sjáum hvernig ungu leikmennirnir brugðust við. Það var ákveðin þreyta en við lærum af því.“

Um markið

„Það voru akkúrat þessi svæði, þessar hlaupaleiðir, sem við ætluðum að ná oftar í þessum leik. Vildum spila beinskeyttan sóknarleik. Það voru nokkur skipti sem við náðum þessu og þá koma ákveðin gæði fram. Til að mynda í markinu en þetta var frábært mark.“

„Þetta er allt hluti af því sem við erum að reyna koma inn í okkar leik. Við viljum halda boltanum aðeins betur en það heppnaðist ekki nægilega oft í dag. Við tökum þetta mark samt með okkur.“

Um „gömlu mennina“ í liðinu

„Eldri og reyndari leikmenn liðsins hafa verið frábærir síðustu níu daga. Ekki bara inn á vellinum heldur einnig á æfingasvæðinu og á hótelinu. Er einfaldlega mjög þakklátur fyrir þeirra framlag. Þeir eru frábærir fyrir ungu strákana og standa við bakið á þeim.“

„Ég hefði viljað halda þeim öllum inn á sem lengst í dag en við þurfum að virða skrokkana hjá til dæmis Kolbeini [Sigþórssyni], Birki [Bjarnasyni] og Aroni [Einari Gunnarssyni, fyrirliða],“ sagði Arnar Þór að lokum.

Ísland mætir Póllandi ytra í síðasta leik þessa landsliðsglugga þann 8. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×