Innlent

Mjöll bar þremur sprelllifandi kálfum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þríkelfingarnir, sem komu í heiminn í gær á bænum Miðskógi í Dalabyggð, tvö naut og kvíga.
Þríkelfingarnir, sem komu í heiminn í gær á bænum Miðskógi í Dalabyggð, tvö naut og kvíga. Aðsend

Sá óvenjulegur atburður átti sér stað í gær að kýrin Mjöll á bænum Miðskógi í Dalabyggð bar þremur kálfum, tveimur nautum og einni kvígu. Þríkelfingnum og móður þeirra heilsast vel.

Það er ekki á hverjum degi, sem kýr bera þremur kálfum, lang oftast er það bara einn, stundum bera þær tveimur en þremur, það er saga til næsta bæjar. 

Skúli Hreinn Guðbjörnsson og Guðrún Esther Jónsdóttir eru bændur á bænum en þau eru með 50 mjólkandi kýr, nokkrar kindur og hesta. Skúli Hreinn lýsir hér burðinum í gær.

„Það var bara kú, sem fór að bera, það gekk nú ekki vel, kom bara hali. Við ákváðum að hringja í dýralækni, sem kom úr Stykkishólmi og þá fór hann að týna út kálfa og það endaði með því að hann dróg þrjá úr henni. Tvo, sem komu öfugir og einn sem kom rétt að. Við ætluðum bara ekki að trúa okkur eigin augum og héldum að dýralæknirinn væri að grínast í okkur þegar hann sótti þriðja kálfinn. Þetta er alveg með ólíkindum og að það hafi allir fæðst sprelllifandi,“ segir Skúli Hreinn.

Guðrún Elsther með kálfana þrjá, sem komu í heiminn þriðjudaginn 1. júni um hádegisbil.Aðsend

Kýrin sem gekk með kálfana þrjá heitir Mjöll og hún var að bera í annað skipti. Faðir kálfanna heitir Fellir frá Búrfelli í Svarfaðardal.

En eru komin nöfn á þríkelfingana?

„Já, já, annað nautið heitir Magnús og hitt Hlynur og kvígan heitir Huppa, þetta eru flott nöfn,“ segir Skúli Hreinn skellihlæjandi og stoltur af nýju kálfunum sínum í fjósinu.

Guðrún Esther með Magnús, Hlyn og Huppu.Aðsend
Það fer mjög vel um kálfana í fjósinu í Miðskógi.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×