Fótbolti

Andrea Rán gengur í raðir Hou­ston Dash

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrea Rán er á leið til Houston.
Andrea Rán er á leið til Houston. Vísir/Bára

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, miðjumaður Íslandsmeistara Breiðabliks, hefur samið við Houston Dash sem leikur í bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu. Gengur hún í raðir liðsins á næstu dögum.

Þetta kemur fram á samfélagsmiðlum Breiðabliks sem og Houston Dash fyrir skömmu.

Andrea Rán hefur leikið frábærlega á miðju Blika það sem af er sumri en framan af ári lék hún með franska liðinu Le Havre á láni. Þá er hún í æfingahóp íslenska A-landsliðsins sem mætir Írum í tveimur æfingaleikjum á næstu dögum. Alls á hún að baki 11 landsleiki til þessa.

Hin 25 ára gamla Andrea Rán mun hins vegar ekki klára sumarið með Blikum þar sem hún hefur samið við Houston Dash. Hún þekkir það ágætlega að spila knattspyrnu í Bandaríkjunum en hún við góðan orðstír með South Florida Bulls í bandaríska háskólaboltanum.

Alls hefur Andrea Rán spilað 188 leiki fyrir meistaraflokk Breiðabliks og skorað í þeim 31 mark. Hún hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari með liðinu og jafn oft bikarmeistari.

Houston Dash er sem stendur í 6. sæti NSWL-deildarinnar í Bandaríkjunum með fjögur stig að loknum fjórum leikjum. Alls eru tíu lið í deildinni.

Andrea Rán verður annar Íslendingurinn í deildinni en landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leikur með toppliðinu Orlando Pride.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×