Erlent

Sérfræðingar hafa áhyggjur af vanþekkingu Breta á píkunni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Það er hræðilegt að fólk viti svona lítið um píkuna og kvenlíkamann.“
„Það er hræðilegt að fólk viti svona lítið um píkuna og kvenlíkamann.“

Meirihluti Breta veit ekki hvað allir hlutar píkunnar heita og þá vita nærri 40 prósent ekki hvar snípurinn er. Þetta eru niðurstöður könnunar sem gerð var meðal einstaklinga á biðstofum heilbrigðisstofnana.

Sérfræðingar segja niðurstöðurnar vekja áhyggjur af því að konur þekki líkama sinn ekki nægilega vel til að bera kennsl á þá kvilla sem þær kunna að þjást af né til að geta sannarlega veitt upplýst samþykki fyrir læknsifræðilegum inngripum.

Um 170 konur tóku þátt í könnuninni og 20 karlar.

Þátttakendurnir voru spurðir að því hversu mörg „göt“ konur hefðu sunnan naflans og voru beðnir um að nefna þau. Aðeins 46 prósent vissu að götin væru þrjú; þvagrásaropið, leggöngin og endaþarmsopið.

„Við sjáum að það eru konur sem virðast ekki vita að þær eru með þvagrásarop, leggöng og endaþarmsop. Þær virðast halda að þvagrásaropið og leggöngin séu það sama,“ segir Fiona Reid, sérfræðingur í þvag- og kvensjúkdómalækningum við St. Mary's Hospital í Manchester.

Þátttakendur fengu einnig mynd af píkunni og voru beðnir um að merkja inn eins marga hluta hennar og þeir gátu. Næstum helmingur valdi að sleppa þessum hluta könnunarinnar en aðeins 9 prósent gátu nefnt alla hluta píkunnar.

Flestir gátu merkt inn leggöngin og endaþarmsopið en aðeins 49 prósent merktu inn skapabarmana og 18 prósent spöngina. Þá ruglaðist fólk á snípnum og þvagrásaropinu.

„Það er hræðilegt að fólk viti svona lítið um píkuna og kvenlíkamann,“ segir Lynn Enright, höfundur bókarinnar Vagina: A Re-education. „Það kemur hins vegar ekki á óvart.“

Enright segist telja algengara að fólk kannist við innri æxlunarfæri kvenna en píkuna sjálfa.

Könnunin leiddi einnig í ljós að fólk þekkti sjúkdóma sem herja á öll kyn mun betur en sjúkdóma tengda kvenlíffærunum. Þannig könnuðust flestir við sykursýki og heilablóðfall en aðeins um helmingur vissi hvað grindarbotnssig var og þá könnuðust aðeins 23 prósent við vöðvahnúta í legi. Báðir „sjúkdómar“ hrjá um þriðjung kvenna einhvern tímann á lífsleiðinni.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×