Erlent

Ætla að skima alla íbúa fjölmennustu borgar Víetnam

Samúel Karl Ólason skrifar
Miðað við höfðatölu er Víetnam enn með mjög lágan fjölda tilfella.
Miðað við höfðatölu er Víetnam enn með mjög lágan fjölda tilfella. EPA/LUONG THAI LINH

Yfirvöld í Víetnam ætla að skima alla níu milljónir íbúa stærstu borgar landsins eftir að nýtt afbrigði nýju kórónuveirunnar, sem talið er smitast auðveldar manna á milli, fannst þar.

AP fréttaveitan hefur eftir ríkismiðlum í Víetnam að verið sé að skipuleggja að skima um hundrað þúsund manns á dag í borginni Ho Chi Minh. Þannig eigi að skima alla níu milljónir íbúa. Íbúum verður einungis leyft að yfirgefa heimili sín vegna nauðsynja og tíu manna samkomubann hefur verið sett á næstu tvær vikurnar.

Miðað við höfðatölu er Víetnam þó enn með mjög lágan fjölda tilfella.

Frá lokum aprílmánaðar hafa rúmlega fjögur þúsund manns greinst smituð ,sem er nærri því tvöfalt fleiri en höfðu áður greinst frá upphafi faraldurs nýju kórónuveirunnar, samkvæmt AP. Minnst 47 hafa dáið.

Samkvæmt frétt ríkismiðilsins Vietnam News tengjast margir hinna smituðu í Ho Chi Minh kirkju í borginni. Forsvarsmenn hennar hafa verið ákærðir fyrir óviðunandi sóttvarnir.

Hér má sjá myndefni Vietnam News frá Ho Chi Minh.

Heilbrigðisráðherra Víetnams sagði um helgina nýja afbrigðið blöndu af því indverska og því breska.

Sjá einnig: Fundu nýtt af­brigði veirunnar í Víet­nam

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tilkynnti í dag að ný afbrigði nýju kórónuveirunnar verði hér eftir gefin nöfn eftir grískum bókstöfum. Miðað við þetta nýja kerfi ætti afbrigðið í Víetnam að fá nafnið Lambda.

Einungis milljón Víetnama, af um 96 milljónum, hafa fengið bóluefni. Ríkisstjórn landsins hefur gert samkomulag við Pfizer um 30 milljónir skammta en þeir verða væntanlega ekki afhentir fyrr en á seinni hluta ársins.

Nguyen Xuan Phuc, forseti, sendi Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, bréf á sunnudaginn, þar sem hann lagði til samstarf ríkjanna varðandi framleiðslu bóluefna, samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×