Fótbolti

Samúel í byrjunarliði Viking sem tapaði fyrir Haugesund í markaleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samúel Kári Friðjónsson var í byrjunarliði Viking sem heimsótti Haugesund í norska boltanum í dag.
Samúel Kári Friðjónsson var í byrjunarliði Viking sem heimsótti Haugesund í norska boltanum í dag. Vísir/Vilhelm

Samúel Kári Friðjónsson og félagar hans í Viking heimsóttu Haugesund í seinasta leik dagsins í norska fótboltanum í dag. Leikmenn Viking þurftu að sætta sig við 4-2 tap og sitja því sjötta sæti deildarinnar.

Kristoffer Velde kom heimamönnum yfir á 24. mínútu eftir stoðsendingu frá Niklas Sandberg.

Veton Berisha jafnaði metin fyrir gestina úr vítaspyrnu á 38. mínútu og staðan var því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Kristoffer Velde kom Haugesund aftur í forystu á 60. mínútu, aftur eftir stoðsendingu frá Niklas Sandberg.

Sandberg lagði svo upp sitt þriðja mark fjórum mínútum seinna, en þá var það Ibrahima Wadji sem kom boltanum í netið.

Alioune Ndour gerði út um leikinn á 91. mínútu þegar hann kom heimamönnum í 4-1. Veton Berisha minnkaði muninn á fimmtu mínútu uppbótartíma og þar við sat.

Þetta var fyrsti sigur Haugesund á tímabilinu. Þeir sitja nú í tíunda sæti með fimm stig, fjórum stigum minna en Viking í sjötta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×