Fótbolti

Amanda valin í æfingarhóp norska U-19 ára lands­liðsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Amanda Andradóttir, leikmaður Noregsmeistara Vålerenga.
Amanda Andradóttir, leikmaður Noregsmeistara Vålerenga. vif-damefotball.no/

Amanda Jacobsen Andradóttir hefur verið valin í æfingahóp norska U-19 ára landsliðsins í knattspyrnu. 

Hún hefur áður leikið með yngri landsliðum Íslands en var ekki í síðasta æfingahóp A-landsliðsins né U-19 ára liðsins og því stökk Noregur á tækifærið.

Hin 17 ára gamla Amanda er dóttir Andra Sigþórssonar, fyrrum atvinnu- og landsliðsmanns í fótbolta. Andri er eldri bróðir Kolbeins og því ljóst að Amanda er úr mikilli fótboltafjölskyldu. Það kom verulega á óvart þegar Amanda var ekki í nýjasta æfingahóp U-19 ára landslið Íslands og virðist sem Noregur ætli að nýta sér það.

Amanda hefur vakið mikla athygli undanfarin misseri en hún leikur í dag með Noregsmeisturum Vålerenga ásamt landsliðsmiðverðinum Ingibjörgu Sigurðardóttur. Amanda samdi við félagið að loknu síðasta tímabili en þar áður spilaði hún með Fortuna Hjörring og Nordsjælland í Danmörku.

Hún hefur byrjað báða leiki Vålerenga til þessa á tímabilinu og lagði upp fyrsta mark liðsins í 4-0 sigri á Lyn um helgina. Móðir Amöndu er norsk og því er hún tengd báðum löndum og gæti augljóslega valið að spila fyrir norska landsliðið standi það til boða.

Til þessa hefur Amanda hins vegar leikið með yngri landsliðum Íslands. Hún á að baki 12 leiki fyrir U-16 og U-17 ára landslið Íslands. Í þeim hefur hún skorað hvorki meira né meinna en tíu mörk og því ljóst að hún er með sama markanef og faðir sinn var með á sínum tíma.

Hér má sjá æfingahóp norska U-19 ára landsliðsins sem var valinn þann 26. maí. Það er ljóst að það væri mikið áfall fyrir íslenska kvennaknattspyrnu ef leikmaður af sama kalíberi og Amanda myndi ákveða að spila fyrir Noreg frekar en Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×