Fótbolti

Landsliðið býr sig í hitanum undir leik fyrir framan tugþúsundir Mexíkana

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Einar Gunnarsson og Eiður Smári Guðjohnsen kasta mæðinni á æfingasvæði landsliðsins í Dallas.
Aron Einar Gunnarsson og Eiður Smári Guðjohnsen kasta mæðinni á æfingasvæði landsliðsins í Dallas. Twitter/@footballiceland

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta undirbýr sig fyrir erfiðan vináttulandsleik við Mexíkó í Texasfylki í Bandaríkjunum.

Leikurinn við Mexíkó fer fram seint annað kvöld, eða kl. 1 eftir miðnætti að íslenskum tíma. Leikið verður á AT&T leikvangi Dallas Cowboys sem tekur 80.000 manns í sæti, en samkvæmt heimasíðu KSÍ er reiknað með tæplega 40.000 áhorfendum á leikinn.

KSÍ birti í dag myndbrot af æfingu landsliðsins á æfingasvæði SMU háskólans. Heitt er í Dallas og fer hitinn yfir 30 gráður á daginn.

Fjölda öflugra leikmanna vantar í íslenska hópinn, af ýmsum ástæðum, og nú síðast varð Ragnar Sigurðsson að yfirgefa hópinn af persónulegum ástæðum. Því er ljóst að óreyndari leikmenn, meðal annars úr Pepsi Max-deildinni, fá tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Leikur Mexíkó og Íslands hefst eins og fyrr segir rétt eftir miðnætti á laugardagskvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.