Innlent

Álfadís hefur kastað tuttugu folöldum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Álfadís með eigendum sínum, þeim Olil Amble og Bergi Jónssyni í Syðri Gegnishólum með folaldið sitt, sem er það tuttugasta sem hún kastar. Ekki er komið nafn á folaldið, sem er skjóttur hestur.
Álfadís með eigendum sínum, þeim Olil Amble og Bergi Jónssyni í Syðri Gegnishólum með folaldið sitt, sem er það tuttugasta sem hún kastar. Ekki er komið nafn á folaldið, sem er skjóttur hestur. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hryssan Álfadís er engin venjuleg hryssa því hún var að kasta sínu tuttugasta folaldi. Mörg af folöldum hennar hafa náð frábærum árangri á sínum ferli, meðal annars stóðhesturinn Álfaklettur, sem er hæst dæmdi kynbóta hestur í heimi.

Það eru þau Olil Amble og Bergur Jónsson, sem eiga og reka hrossaræktarbúið á Syðri Gegnishólum í Flóahreppi. Þau hafa náð einstökum árangri með hrossin sín í gegnum árin en upp úr stendur þó ræktarhryssan Álfadís, sem er orðinn 25 vetra og var að kasta sínu tuttugasta folaldi en faðir þess er Stáli frá Kjarri í Ölfusi. 

Ekki er vitað til þess að önnur hryssa á Íslandi hafi átt svona mikið af folöldum

„Þetta er náttúrulega einstök hryssa. Hún er drottning í stóðinu og hún veit af því. Alstærsti eiginleikinn hennar er geðslagið, geðslagið er svo samvinnufúst,“ segir Bergur.

Olil tekur undir orð Bergs.

 „Já, það er mikil gæfa að fá að eiga svona meri, hún er búin að færa okkur mikla ánægju og mörg frábær afkvæmi.“

Bergur og Olil segjast ekkert stjana sérstaklega við Álfadísi. „Nei, nei við stjönum bara við allar merarnar okkar, þær eru allar sérstakar og þess vegna eru þær hér í ræktun,“ segir Olil og hlær.

Eitt af frægustu afkvæmum Álfadísar er stóðhesturinn Álfaklettur sem eru nú í sæðingum í Syðri Gegnishólum en hann er hæst dæmdi kynbótahestur heims.

En verður hann alltaf íslenskur eða verður hann seldur til útlanda?

„Nei, hann verður íslenskur, hann fer ekki til útlanda. Það er búið að falast eftir honum en hann er ekki á förum, við ætlum að hafa hann hér, við lofum því,“ segir Olil.

Álfaklettur mun alltaf verða á Íslandi, því lofa Olil og Bergur en hann er í sæðingum hjá þeim þessar vikurnar enda langur listi af hryssum, sem bíða eftir sæði frá honum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×