Innlent

Lagt til að tannréttingar barna verði gjaldfrjálsar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
visir-img
vísir/Vilhelm

Lagt er til að tannréttingar barna verði gjaldfrjálsar og að heilbrigðisráðherra verði gert að leggja fram frumvarp þess efnis í þingsályktunartillögu sem Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar hefur lagt fram. Tillöguna styðja einnig aðrir þingmenn Samfylkingarinnar.

Í greinargerð tillögunnar er vísað til þess að tannlækningar barna hafi verið gerðar gjaldfrjálsar árið 2018 og telja þingmennirnir að hið sama eigi að gilda um tannréttingar. 

Þá segir að núverandi styrkjakerfi dugi skammt þar sem styrkirnir mæti ekki kostnaði foreldra. Það sé óboðlegt að börnum sé mismunað eftir efnahag foreldra. Kostnaður við tannrétingar geti hæglega farið yfir eina milljón króna og meðferðin tekið nokkur ár. Efnaminni foreldrar veigri sér þannig við að ráðast í tannréttingar barna sinna.

Í greinargerð segir að Sjúkratryggingar veiti í dag 100-150.000 króna styrk vegna tannréttingarmeðferðar með föstum spöngum. Upphæðin hafi ekki breyst í tuttugu ár og ekki haldið í við verðlagsþróun.vísir/Vilhelm

„Þessi staða er ólíðandi og því er mikilvægt að Alþingi gefi út viljayfirlýsingu um að börnum verði ekki lengur mismunað þegar kemur að tannréttingum,“ segir í greinargerð.

Verði tillagan samþykkt yrði heilbrigðisráðherra gert að leggja fram frumvarp um gjaldfrjálsar tannréttingar eigi síðar en í desember á þessu ári. Tillagan er þó lögð fram undir blálok þingvetursins þar sem einugis átta þingfundir eru eftir á starfsáætlun Alþingis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×