Innlent

Hefur á­hyggjur af af­skiptum af komandi kosningum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Björn Leví Gunnarsson er þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson er þingmaður Pírata. VILHELM GUNNARSSON

Píratar hafa farið fram á að Öryggis- og framfarastofnun Evrópu sinni kosningaeftirliti í komandi alþingiskosningum.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, greindi frá þessu á Alþing í dag. Hann sagði stöðu mála grafalvarlega og vísaði til fregna af því að svokölluð skæruliðadeild Samherja hafi beitt sér gegn blaðamönnum og fjölmiðlum auk þess að hafa reynt að hafa áhrif á val formanns Blaðamannafélagsins og prófkjör Sjálfstæðisflokksins.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur áhyggjur af afskiptum af komandi kosningum.

„Uppljóstranir undanfarna daga hafa sýnt okkur að það er verið að reyna að hafa áhrif og þá spyrjum við þeirrar augljósu spurningar: Hvort það sé ekki eðlilegt að það sé komið á kosningaeftirliti með það að markmiði að skoða hvort að fjársterkir aðilar geti hent tugum, hundruðum milljóna í að hafa áhrif á niðurstöður lýðræðislegra kosninga?“ segir Björn Leví í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Tilefni til skoðunar

„Við höfum séð það í fyrri kosningum, 2016 og 2017 þegar að síðurnar „Kosningar 2016“ sem höfðu mjög mikil áhrif, svona miðað við eftir á greiningar. Þannig að við teljum að það sé tvímælalaust tilefni til þess að skoða hvort þetta geti haft áhrif,“ segir Björn Leví.

„Þetta er tiltölulega þekkt í þónokkrum löndum, semsagt hvernig áhrifa er beitt með auglýsingum og áróðri þar sem það þarf að merkja það hver er ábyrgðaraðili auglýsingar. Það er frumvarp sem er í meðhöndlun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nú í dag og það vonandi næst í gegn og verður kannski betrumbætt að einhverju leyti miðað við upplýsingar undanfarinna daga. Þannig við sjáum hvernig það fer, það gæti farið betur en á horfðist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×