Fótbolti

16 dagar í EM: England eina þjóðin sem hefur farið á níu EM og aldrei unnið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Síðasta sekúndan á síðasta Evrópumóti Englendinga. Íslensku strákarnir fagna sigri og sæti í átta liða úrslitunum.
Síðasta sekúndan á síðasta Evrópumóti Englendinga. Íslensku strákarnir fagna sigri og sæti í átta liða úrslitunum. Getty/Marc Atkins

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Ein mikil knattspyrnuþjóð á enn eftir að vinna Evrópumótið þrátt fyrir margar tilraunir.

Enska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur beðið lengi eftir því að vinna stórmót. Liðið varð heimsmeistari á heimavelli sumarið 1966 en hefur ekki unnið titil síðan eða í 55 ár.

Englendingar hafa því orðið heimsmeistarar en þeir hafa aldrei orðið Evrópumeistarar.

Átta þjóðir hafa komust níu sinnum í úrslitakeppni EM og allar nema England hafa orðið Evrópumeistarar. Hinar eru Þýskaland (1972, 1980 og 1996), Rússland/Sovétríkin (1960), Spánn (1964, 2008, 2012), Tékkland/Tékkóslóvakía (1976), Frakkland (1984, 2000), Ítalía (1968) og Holland (1988).

Danir eru á sínu níunda EM og Portúgalar því áttunda en báðar þjóðir hafa unnið Evrópumeistaratitilinn, Danir 1992 og Portúgalar á síðasta EM í Frakklandi sumarið 2016.

Enska landsliðið komst fyrst í úrslitakeppni Evrópumótsins árið 1968 og eru því nú með í tíunda skiptið.

Englendingar mættu á sitt fyrsta Evrópumót sem ríkjandi heimsmeistarar en töpuðu 1-0 á móti Júgóslavíu í undanúrslitaleiknum. Enska liðið vann síðan 2-0 sigur á Sovétríkjunum í leiknum um þriðja sætið.

Þetta er besti árangur enska landsliðsins á EM því í hitt skiptið sem Englendingar komust í undanúrslit, á heimavelli 1996, þá tapaði liðið í vítakeppni á móti Þýskalandi og þá var ekki spilað um þriðja sætið.

Englendingar fjórum sinnum setið eftir í riðlinum og þeir eru enn að jafna sig eftir síðasta Evrópumót þar sem litla Íslands sló þá út í sextán liða úrslitunum.

Enska liðið hefur dottið út í fyrsta leik útsláttarkeppninnar á síðustu þremur Evrópumótum sínum því Englendingar duttu út á móti Portúgal í vítakeppni í átta liða úrslitunum 2004 og svo á móti Ítalíu í vítakeppni í átta liða úrslitunum 2012. Enska landsliðið komst ekki á EM 2008.

Síðasti sigurleikur Englendingar í útsláttarkeppni á Evrópumóti kom því á heimavelli 1996 þegar liðið vann Spánverja í vítakeppni í leik í átta liða úrslitum á Wembley.

Leikurinn á móti Íslandi á EM í Frakklandi sumarið 2016 er jafnframt eini leikur enska landsliðsins í útsláttarkeppni EM undanfarna fimm áratugi sem hefur ekki farið í vítakeppni.

Englendingar komust þá í 1-0 með marki Wayne Rooney úr vítaspyrnu en mörk frá Ragnari Sigurðssyni og Kolbeini Sigþórssyni tryggði íslenska liðinu sigur og sæti í átta liða úrslitum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×