Fótbolti

Frost í Frostaskjóli hjá báðum KR-liðunum í heilt ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-liðin hafa ekki verið sannfærandi á heimavelli sínum í Frostaskjóli undanfarið ár.
KR-liðin hafa ekki verið sannfærandi á heimavelli sínum í Frostaskjóli undanfarið ár. Vísir/Samsett/Hulda Margrét og Bára

Karlalið KR í körfubolta og knattspyrnu hafa bæði verið sigursæl á síðustu árum og því kemur slæmt gengi þeirra á heimavelli undanfarið ár á óvart.

Knattspyrnuliðið bíður enn eftir fyrsta heimasigri sumarsins eftir jafntefli á móti HK í Pepsi Max deildinni í gær. 88 prósent stiga liðsins í sumar hafa komið í hús annars staðar en í Vesturbænum.

Í fyrrasumar var KR í 10. sæti yfir stig á heimavelli og vann þá aðeins 3 af 10 heimaleikjum. KR fékk þannig 61 prósent stiga sinna utan Vesturbæjar þrátt fyrir að spila þremur leikjum fleiri á heimavelli sínum.

Sama slæma gengið á heimavelli er hjá körfuboltaliðinu á þessu tímabili. KR hefur tapað fyrsta heimaleik sínum í úrslitakeppninni en unnið báða útileiki sína.

KR vann líka aðeins þrjá af ellefu deildarleikjum sínum í Frostaskjólinu í vetur. 9 af 12 sigurleikjum liðsins í deildinni komu á útivelli.

Samanlagt hafa KR-ingar unnið þrefalt fleiri leiki á útivelli en á heimavelli frá því í júní í fyrra.

  • KR-liðin á heimavelli á Íslandsmótinu á Covid-tímum:
  • Fótboltaliðið 2020: 3 sigrar og 11 stig í 10 leikjum
  • Körfuboltaliðið 2020/21: 3 sigrar og 6 stig í 12 leikjum
  • Fótboltaliðið 2021: 0 sigrar og 1 stig í 3 leikjum
  • Samtals: 6 sigrar og 18 stig í 25 leikjum
  • -
  • KR-liðin á útivelli á Íslandsmótinu á Covid-tímum:
  • Fótboltaliðið 2020: 5 sigrar og 17 stig í 7 leikjum
  • Körfuboltaliðið 2020/21: 11 sigrar og 22 stig í 13 leikjum
  • Fótboltaliðið 2021: 2 sigrar og 7 stig í 3 leikjum
  • Samtals: 18 sigrar og 46 stig í 23 leikjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×