Innlent

Fylgi Sjálf­­­stæðis­­­flokksins dregst saman

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kosið verður til Alþingis 25. september næstkomandi.
Kosið verður til Alþingis 25. september næstkomandi. Vísir/Vilhelm

Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar nokkuð samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, eða um tvö og hálft prósentustig miðað við sambærilega könnun sem gerð var í apríl á þessu ári. Minna en helmingur kveðst ánægður með störf ríkisstjórnarinnar.

Fylgi Miðflokksins, sem hefur verið á niðurleið, hækkar aftur á móti úr 5,3 prósentum í 6,8 prósent. Sósíalistar bæta einnig við sig og fara úr 4,1 prósenti í 5,5 prósent.

Fylgi Vinstri grænna mælist þá 14,4 prósent, samanborið við 15,2 prósent í síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn bætir við sig einum tíunda úr prósentustigi og mælist með 11,2 prósent fylgi. Samfylkingin og Viðreisn mælast með ríflega tólf prósenta fylgi, Píratar með tæp ellefu prósent og Flokkur fólksins með fimm prósent, líkt og í síðustu könnun.

Hér má sjá niðurstöður könnunarinnar myndrænt. Þrír stólpar fyrir hvern flokk. Sá til vinstri táknar fylgi í síðustu kosningum, sá í miðjunni fylgi samkvæmt könnun í síðasta mánuði og sá til hægri fylgið samkvæmt nýjustu könnun.Stöð 2

Tæpur helmingur ánægður með ríkisstjórnina

Tæpur helmingur svarenda, eða 47,7 prósent, kveðst ánægður með störf ríkisstjórnarinnar. Minnihluti kveðst óánægður, eða 22,6 prósent. Þá sögðust 29,7 prósent svarenda í meðallagi ánægð með störf ríkisstjórnarinnar.

Rúmlega helmingur svarenda, 50,1 prósent, kvaðst í meðallagi ánægður með störf stjórnarandstöðunnar á þingi. Þá segjast 15,3 prósent ánægð með störf hennar en 34,6 prósent óánægð.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, hóp fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Á netinu. Þátttakendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin inniheldur tvær mælingar. Sú fyrri fór fram dagana 26. apríl til 5. maí 2021 og sú síðari 10. til 19. maí. Svarendur voru 1.715 talsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×