Fótbolti

Donnar­umma líklega á förum þar sem Milan hefur sótt mark­vörð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Donnarumma, með fyrirliðabandið, í leik gegn Manchester United fyrr á árinu. Nú virðist sem hann gæti hafa leikið sinn síðasta leik fyrir AC Milan.
Donnarumma, með fyrirliðabandið, í leik gegn Manchester United fyrr á árinu. Nú virðist sem hann gæti hafa leikið sinn síðasta leik fyrir AC Milan. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Ítalska knattspyrnufélagið AC Milan hefur samið við franska markvörðinn Mike Maignan. Þykir það benda til þess að Gianluigi Donnarumma, landsliðsmarkvörður Ítalíu, sé á förum frá félaginu.

Blaðamaðurinn Fabrizio Romano greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni fyrr í dag en hann þykir einkar áreiðanlegur þegar kemur að félagaskiptum leikmanna. Hinn 25 ára gamli Maignan hefur leikið með Lille síðan 2015 og varð franskur meistari með liðinu á dögunum.

Hann á aðeins ár eftir af samningi sínum við Lille og því hefur félagið ákveðið að selja hann ódýrt miðað við hvað markverðir kosta í dag. Talið er að AC Milan borgi ekki nema 15 milljónir evra fyrir markvörðinn knáa.

Maignan hefur leikið með öllum yngri landsliðum Frakklands og á að baki einn A-landsleik.

Maignan í leik gegn París Saint-Germain.EPA-EFE/YOAN VALAT

AC Milan endaði í 2. sæti Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni, með 79 stig. Stigi á undan Atalanta og Juventus en 12 stigum á eftir nágrönnum sínum í Inter sem urðu Ítalíumeistarar.

Kaupin er talin þýða að Donnarumma hafi leikið sinn síðasta leik fyrir félagið en þessi 22 ára gamli markvörður verður samningslaus í sumar. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann spilað yfir 200 leiki fyrir Milan ásamt því að leika 25 A-landsleiki fyrir Ítalíu.

Óvíst er hvert Donnarumma fer en vitað er að Juventus hefur mikinn áhuga á að fá hann í sínar raðir. Þá er umboðsmaður hans, Mino Raiola, mikill aðdáandi Juventus. Eru orðrómar á kreiki að Milan hafi ekki verið tilbúið að samþykkja launakröfur hans en Donnarumma sagði fyrr á árinu að hann vildi vera áfram í herbúðum Mílanó-liðsins.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×