Fótbolti

Luis Suarez eyddi öllu Liverpool tali og Simeone þakkaði Barcelona fyrir gjöfina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez fagnar sigri Atletico Madrid með liðsfélögum sínum en Suarez var að vinna þennan bikar í fimmta sinn á sjö tímabilum.
Luis Suarez fagnar sigri Atletico Madrid með liðsfélögum sínum en Suarez var að vinna þennan bikar í fimmta sinn á sjö tímabilum. EPA-EFE/RODRIGO JIMENEZ

Ruslið hjá sumum er fjársjóður fyrir aðra. Þetta á kannski hvergi betur við en á þessu tímabili í spænska fótboltanum.

Luis Suarez skoraði sigurmark Atletico Madrid í tveimur síðustu leikjum tímabilsins og sá öðrum fremur til þess að liðið varð spænskur meistari. Úrúgvæmaðurinn staðfesti framtíð sína eftir að titilinn var í höfn.

Hinn 34 ára gamli Suarez skoraði 21 deildarmark á sínu fyrsta tímabili með Atletico Madrid eftir að Barcelona taldi sig ekki hafa lengur not fyrir hann.

Suarez gerði tveggja ára samning við Atletico en það var klásúla í samningnum sem gaf honum færi á því að fara á frjálsri sölu í sumar. Suarez hafði meðal annars verið orðaður við endurkomu til Liverpool.

Suarez eyddi hins vegar öllum slíkum orðrómum eftir leikinn um helgina þegar hann var spurður um það hvort hann yrði áfram hjá Atletico.

„Já, já, alveg pottþétt,“ sagði Luis Suarez. Hann sagðist einnig ekki hafa verið metinn af verðleikum hjá Barcelona en eitt af fyrstu verkum Ronald Koeman eftir að hann tók við var að losa sig við Úrúgvæmanninn.

Endalokin hjá Barcelona voru honum mikil vonbrigði og titilinn með Atletico Madrid því enn stærri sigur.

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atletico Madrid, fór einu skrefi lengra og þakkaði Barcelona fyrir gjöfin eftir að lið hans hafði unnið spænska meistaratitilinn í fyrsta sinn í sjö ár.

Simeone var spurður hvernig Atletico liðið fór að því að vinna deildina. „Barcelona gaf okkur Luis Suarez,“ svaraði Simeone og hann skilaði líka kveðju til Barcelona. „Já, ég elska þá. Takk kærlega fyrir. Þið gáfuð okkur leikmanninn sem vann titilinn,“ sagði Simeone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×