Erlent

Tuttugu mara­þon­hlauparar fórust í stormi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Minnst 21 fórust í maraþonhlaupi í Gansu um helgina.
Minnst 21 fórust í maraþonhlaupi í Gansu um helgina. AP/Fan Peishen

Tuttugu og einn maraþonhlaupari fórst eftir að hafa lent í stormi í norðvesturhluta Kína. Hlaupararnir voru að hlaupa hundrað kílómetra últramaraþon í Gulársteinaskóginum í Gansu-héraðinu í gær.

Miklir vindar, kuldi og rigning tóku við hlaupurunum í skóginum og tóku stjórnendur hlaupsins ákvörðun um að stöðva keppnina eftir að 172 hlauparar týndust á svæðinu. Björgunaraðgerðir tóku þá við en fjöldi hlauparanna ofkældist.

Stjórnendur keppninnar segja að 151 keppendanna séu heilir á húfi en að átta þeirra hafi slasast.

Meira en 1.200 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitaraðgerðum í gær og í nótt.AP/Fan Peishen

Hlaupið hófst klukkan 9 að morgni, að staðartíma í gær, og lögðu margir keppendanna af stað aðeins klæddir í stuttermabol og stuttbuxur. Keppendur sem lifðu storminn af segja að veðurspá hafi sýnt rok og rigningu en að svona miklar öfgar hafi aldrei verið í kortunum.

Meira en 1.200 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum og drónar sem mæla hita voru notaðir til að finna keppendurna. Aðgerðir stóðu yfir í alla nótt en á þeim tíma lækkaði hitastig á svæðinu mikið sem gerði leitina erfiðari.

Dauðsföllin hafa vakið mikla reiði í Kína og hafa margir Kínverjar lýst yfir reiði á samfélagsmiðlum. Reiðin beinist einna helst að stjórnvöldum í Gansu, vegna þess hve illa undirbúin þau voru.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×