Menning

Sunna Gunn­laugs­dóttir valin bæjar­lista­maður Kópa­vogs

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sunna stendur hér fyrir miðju ásamt Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, og Karen Elísabetu Halldórsdóttur, formanni lista- og menningarráðs Kópavogs.
Sunna stendur hér fyrir miðju ásamt Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, og Karen Elísabetu Halldórsdóttur, formanni lista- og menningarráðs Kópavogs. Kópavogsbær

Sunna Gunnlaugsdóttir, jazzpíanisti, hefur verið valin Bæjarlistamaður Kópavogs 2021. Þetta var tilkynnt í Salnum í gær en Sunna hefur verið áberandi í tónlistarsenunni um áratugaskeið.

„Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar er hreykið af þessari niðurstöðu. Sunna Gunnlaugsdóttir er frábær tónlistarkona sem á farsælan feril að baki erlendis og hér heima og hefur átt sinn þátt í að byggja upp blómlegt tónlistarlíf Kópavogsbæjar, meðal annars með tónlistarhátíðinni Jazz í Salnum. Við hlökkum til samstarfsins með henni næsta árið,“ segir Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar, um valið á bæjarlistamanni 2021 í tilkynningu.

Sunna hefur gefið frá sér ellefu geisladiska sem hafa hlotið góðar viðtökur hér á landi og erlendis og hafa þeir náð inn í efstu sæti vinsældarlista á jazzútvarpstöðum bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Fyrsta plata Sunnu, Mindful, var valin meðal 10 bestu diska ársins af blaðinu Virginian Pilot árið 2000.

Sunna hefur hlotið fjölda tilnefninga til Íslensku tónlistarverðlaunanna og var valin flytjandi ársins árið 2015 og 2019. Tríó hennar, Þorgríms Jónssonar og Scott McLemore hefur notið mikillar hylli og var valið Tónlistarhópur Reykjavíkur árið 2013.

Sunna tekur við keflinu sem bæjarlistamaður af Herra Hnetusmjöri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×