Innlent

Allt annað líf að fá að standa ber­skjaldaður andspænis kúnnunum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Björn Árnason, eigandi Skúla Craft Bar, er í skýjunum með næstu skref í afléttingu samkomutakmarkana.
Björn Árnason, eigandi Skúla Craft Bar, er í skýjunum með næstu skref í afléttingu samkomutakmarkana. vísir

Ætla má að veitinga­húsa- og bar­eig­endur landsins hafi margir hverjir séð til­efni til að gleðjast í dag yfir boðuðum til­slökunum á sótt­varna­reglum. Það er Björn Árna­son, eig­andi Skúla Craft Bar, að minnsta kosti en hann segir það muna öllu að fá að af­greiða fólk grímu­laus.

„Það er allt annað, þegar þú ert að veita þjónustu, að geta horft framan í fólk. Þú sérð aldrei framan í fólkið þegar það er með grímu. Þetta er allt önnur upp­lifun að fá að af­greiða fólk þegar þú ert með and­litið alveg ber­skjaldað,“ Björn í við­tali í kvöld­fréttum Stöðvar 2.

Hann segist hafa fundið fyrir þverrandi þolin­mæði fólks fyrir grímunum, bæði meðal við­skipta­vina sinna og starfs­fólks.

Mikil breyting fyrir veitingahús og bari

Fyrir­hugaðar af­léttingar stjórn­valda voru kynntar í dag og má segja að þar hafi verið horft sér­stak­lega til veitinga­húsa- og bar­eig­anda. Þegar nýjar reglur taka gildi næsta þriðju­dag mega 150 manns koma saman í einu og hefur fjar­lægðar­reglan færst úr tveimur metrum í einn inni á veitinga­stöðum og börum.

Veitinga­menn geta þannig full­nýtt rými sín á ný. Opnunar­tími staðanna hefur einnig verið lengdur til mið­nættis en þeir mega þó ekki hleypa nýjum gestum inn eftir klukkan ellefu.

„Það munar rosa miklu. Við erum náttúru­lega ekki búin að fá að full­nýta opnunar­tímann síðan í mars í fyrra þannig það gerir rosa­lega mikið – allir þessir auka­klukku­tímar sem maður fær fyrir reksturinn. Þá koma inn auka­tekjur og starfs­fólk fær auka­tekjur og svo fram­vegis,“ segir Björn.

Við­talið við Björn má sjá í heild sinni hér að neðan:

Helstu breytingar sem taka gildi 25. maí:

  • Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 50 í 150 manns. Börn fædd 2015 og verða áfram undanþegin.
  • Nándarregla: Tveggja metra nándarmörk verða áfram meginregla nema á veitingastöðum, sitjandi viðburðum, í skólastarfi og á sund- og baðstöðum þar sem nándarmörkin verða einn metri.
  • Grímuskylda: Létt verður á grímuskyldu og hún fellur m.a. niður í verslunum og á vinnustöðum. Einungis er gerð krafa um grímu á sitjandi viðburðum, s.s. leiksýningum, bíósýningum, í kirkjuathöfnum á íþróttaviðburðum og viðlíka. Einnig er skylt að bera grímu vegna þjónustu sem krefst mikillar nándar, t.d. á hárgreiðslustofum, nuddstofum og við sambærilegar aðstæður. Heilbrigðisstofnanir geta gert ríkari kröfur um grímunotkun.
  • Sund- og baðstaðir, tjaldstæði, skíðasvæði og söfn mega opna fyrir leyfilegan hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi í stað kröfu um 75% áður.
  • Líkamsræktarstöðvar mega opna miðað við leyfilegan hámarksfjölda gesta, í stað 75%, en þó þannig að ekki séu fleiri en 150 manns í hverju rými.
  • Sitjandi viðburðir: Hámarksfjöldi áhorfenda fer úr 150 í 300 manns í hverju sóttvarnahólfi. Veitingar, þ.m.t. vínveitingar heimilar í hléi. Hér gildir grímuskylda.
  • Verslanir: Enginn hámarksfjöldi verður á viðskiptavinum í verslunum í stað 200 manns. Áfram verður þó regla um fjölda viðskiptavina á fermetra.
  • Veitingastaðir: Opnunartími veitingastaða lengist um klukkustund, frá kl. 22 til kl. 23. Gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn fyrir miðnætti. Skólastarf: Reglugerð um takmarkanir á skólastarfi fellur brott. Þess í stað gilda um skólastarf almennar reglur um samkomutakmarkanir.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×