Fótbolti

21 dagur í EM: Þegar Gummi Ben varð heimsfrægur í miðju Evrópumóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Benediktsson varð heimsfrægur eftir lýsingar sínar frá EM.
Guðmundur Benediktsson varð heimsfrægur eftir lýsingar sínar frá EM. Visir/Vilhelm

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Lýsing Guðmundar Benediktssonar á sigurmarki Íslands á móti Austurríki á EM 2016 skilaði honum óvæntri heimsfrægð.

Það þekktu ansi margir í heiminum til „klikkaða lýsandans“ frá Íslandi eftir leik Íslands og Austurríkis í París 22. júní 2016.

Mögnuð lýsing Guðmundar Benediktssonar á sigurmarki Arnórs Ingva Traustasonar á móti Austurríki á Stade de France fór á flug á netmiðlum í kjölfar sigursins þar sem strákarnir okkar tryggðu sér leik á móti Englandi í sextán liða úrslitum keppninnar.

Gummi Ben fór þarna upp á háa C-ið með eftirminnilegum hætti enda íslenska karlalandsliðið þarna að vinna sinn fyrsta leik á stórmóti og um leið að tryggja sér draumaleik á móti Englandi í sextán liða úrslitunum.

Nýliðarnir frá Íslandi höfðu slegið í gegn en fáir af strákunum fengu þó að kynnast öðru eins áreiti og Guðmundur Benediktsson dagana á eftir.

„Símtölin, tölvupóstarnir og skilaboðin skipta örugglega þúsundum. Þetta er bara vitleysa. Ég myndi orða það helst þannig,“ segir Guðmundur Benediktsson í samtali við Fréttablaðið (og Vísi) næstum því tveimur vikum síðar. „Þetta er alger vitleysa sem ég hef lítinn áhuga á að taka þátt í.“

Guðmundur sagði að það hafi ekki verið meðvituð ákvörðun að lýsa markinu á þennan hátt. Hann segir að það sé ekki hægt.

„Það er bara ýmislegt sem gerist í beinni útsendingu. Ef vel á að gera þá er best að ákveða ekki neitt,“ segir Guðmundur og bætir við að þegar tilefnið sé jafn stórt og nú séu miklar tilfinningar í spilinu.

Skyndileg heimsfræg breytti líka litlu fyrir íslenska lýsandann en það var aðeins öðruvísi að lýsa næstu leikjum íslenska liðsins á Evrópumótinu.

„Ég varð var við það í leiknum gegn Englandi að það voru margir í kringum mig í stúkunni sem vissu greinilega af þessu og voru að fylgjast með mér. En maður getur ekki breytt því. Þetta er bara ég. Ég verð að vera ég. Það var einhvern tímann sagt að allt annað væri upptekið,“ segir Guðmundur í fyrrnefndu viðtali sem birtist á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×