Fótbolti

Suður-Ameríkukeppnin tekin af Kólumbíu vegna mótmælaöldu í landinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ástandið í Kólumbíu er eldfimt.
Ástandið í Kólumbíu er eldfimt. getty/Juancho Torres

Kólumbía mun ekki halda Suður-Ameríkukeppnina í sumar eins og til stóð vegna mótmælaöldu í landinu. Mótið fer nú eingöngu fram í Argentínu.

Mótmæli hafa geysað í Kólumbíu undanfarnar vikur vegna umdeildra breytinga á skattkerfi og heilbrigðiskerfi landsins sem voru seinna dregnar til baka. 

Mótmælendur hafa meðal annars truflað leiki í Copa Libertadores sem er eins konar Meistaradeild Suður-Ameríku. Leikirnir í keppninni sem áttu að fara fram í Kólumbíu hafa verið færðir til Paragvæ og Ekvador.

Vegna mótmælaöldunnar í Kólumbíu hefur Knattspyrnusamband Suður-Ameríku (Comnebol) hefur tekið Suður-Ameríkukeppnina af Kólumbíu eftir að hafa hafnað beiðni þeirra um að færa leikina sem áttu að fara fram í landinu fram í nóvember. 

Suður-Ameríkukeppnin 2021 fer því eingöngu fram í Argentínu. Mótið fór síðast fram í Argentínu fyrir áratug. Þá stóð Úrúgvæ uppi sem sigurvegari.

Suður-Ameríkukeppnin átti að fara fram í fyrra en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Brasilía er ríkjandi meistari eftir að hafa unnið Suður-Ameríkukeppnina 2019.

Argentína og Síle mætast í upphafsleik Suður-Ameríkukeppninnar í Búenos Aíres 13. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×