Innlent

Á­byrgðar­maður hafði betur gegn Mennta­sjóði náms­manna

Eiður Þór Árnason skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Vísir/vilhelm

Ábyrgðarmaður námsláns hjá Menntasjóði námsmanna, áður Lánasjóði íslenskra námsmanna, ber ekki ábyrgð á öllu láninu heldur einungis þeim hluta sem var í vanskilum við gildistöku nýrra laga um Menntasjóð námsmanna. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur en dómur þess efnis var kveðinn upp í dag.

Var ábyrgðarmaðurinn því sýknaður af kröfu um greiðslu láns­ins sem nam rúmum sjö millj­ón­um króna auk drátt­ar­vaxta. Umrædd lög tóku gildi í júní í fyrra og fólu í sér niðurfellingu á ábyrgðum námslána sem tekin voru í tíð eldri laga að uppfylltum skilyrðum, til að mynda að lánið hafi staðið í skilum.

Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson, lögmaður ábyrgðarmannsins, segir að um sé að ræða stóran sigur fyrir fólk í sömu stöðu og á hann von á því að dómurinn verði fordæmisgefandi fyrir eftirstandandi ábyrgðarmenn námslána.

Greiddi 325 þúsund krónur

Menntasjóður námsmanna stefndi lánþega og ábyrgðarmanni vegna námsláns sem var upphaflega tekið í september 2005. Lánið komst í vanskil í september 2019 en þá stóð lánið í 7.111.855 krónum.

Menntasjóður námsmanna er til húsa í Borgartúni.Vísir/Egill

Eftir að lánið var gjaldfellt greiddi ábyrgðarmaður lánsins 325 þúsund krónur til Menntasjóðs námsmanna þann 9. desember 2020. Sú upphæð dugaði sem greiðsla af afborgunum fyrir þeim hluta lánsins sem var í vanskilum, auk dráttarvaxta, áður en ný lög um Menntasjóð námsmanna tóku gildi í júní.

Menntasjóður byggði á því að ef minnst einn gjalddagi væri í vanskilum við gildistöku laganna þá myndi ábyrgðin í heild sinni ekki falla niður. Héraðsdómur féllst ekki á þau sjónarmið.

Enginn vafi um greiðsluábyrgð lántaka

Héraðsdómur féllst á það með stefnanda að enginn vafi væri um greiðsluábyrgð lántakans sem tók ekki til varna fyrir dómi. Álitaefni málsins laut að því hvort hinn meðstefndi ábyrgðarmaður bæri enn óskipta ábyrgð ásamt lántaka, sem ábyrgðarmaður að námsláninu.

Ábyrgðarmaðurinn byggði einkum á því að ábyrgð hans á umræddri skuld hafi verið niður fallin, að undanskildum þeim afborgunum af láninu sem sannarlega hafi verið vanskilum áður en nýju lögin tóku gildi í júní 2020. Þá upphæð hafði hann greitt til Menntasjóðs líkt og áður segir.

Menntasjóður námsmanna taldi að sjóðnum hafi verið stætt að gjaldfella allt námslánið, einnig gagnvart ábyrgðarmanninum, í ljósi fyrirliggjandi vanskila frá 1. september 2019, þó svo að gjaldfelling lánsins hafi verið framkvæmd stuttu eftir lagabreytinguna.

Byggði sjóðurinn meðal annars á því að lögin fælu í sér skilyrta eftirgjöf kröfu á hendur ábyrgðarmanni og að það skilyrði að lánið væri í skilum við gildistöku nýju laganna hafi ekki verið uppfyllt.

Ábyrgðarmaðurinn taldi hins vegar að sú nálgun geti ekki talist rétt túlkun á efni umrædds ákvæðis í nýju lögunum með hliðsjón af efni laganna og yfirlýstum markmiðum þeirra. Eitt þeirra hafi verið að stuðla að jafnræði ábyrgðarmanna og að lánþegi ætti almennt að bera einn ábyrgð á námsláni.

Um 1.200 enn í ábyrgðum

Að mati héraðsdóms verður að láta hinn stefnda ábyrgðarmann njóta þess vafa sem uppi er um túlkun á umræddu ákvæði. Þá falli sá skýringakostur enn fremur betur að yfirlýstum markmiðum með setningu laganna um Menntasjóðs námsmanna um að ábyrgðir heyri nú til undantekninga.

Mbl.is greindi frá því í fyrra að rúm­lega 29 þúsund ábyrgðir ábyrgðarmanna á náms­lán­um sem tek­in voru fyr­ir mitt ár 2009 hafi verið felld­ar niður í kjöl­far gildis­töku laga um Mennta­sjóð náms­manna. Eft­ir stóðu þó 1.211 ein­stak­ling­ar sem enn voru í ábyrgðum fyr­ir lán­tak­end­ur.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.