Íslenski boltinn

Ekki að sjá að uppáhalds drengurinn á Akranesi væri að spila sinn fyrsta leik í efstu deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikið mun mæða á Dino Hodzic í marki ÍA það sem eftir lifir tímabils.
Mikið mun mæða á Dino Hodzic í marki ÍA það sem eftir lifir tímabils. vísir/hulda margrét

Króatíski markvörðurinn Dino Hodzic lék sinn fyrsta leik í efstu deild þegar ÍA gerði markalaust jafntefli við Stjörnuna í fyrradag. Hann komst vel frá sínu eins og fjallað var um í Pepsi Max Stúkunni.

Árni Snær Ólafsson, fyrirliði og aðalmarkvörður ÍA, sleit hásin í leiknum gegn FH í síðustu viku og verður frá út tímabilið. Dino mun því verja mark Skagamanna það sem eftir lifir móts.

Dino átti góðan leik gegn Stjörnunni á mánudaginn og fékk hrós fyrir frammistöðu sína í Pepsi Max Stúkunni.

„Hann var virkilega góður og öflugur og þú finnur fyrir nærveru hans inni í teignum. Hann talar og stjórnar liðinu vel. Þetta var fyrsti leikurinn hans í efstu deild en þú gast ekki séð það á hans fasi eða hans leik,“ sagði Jón Þór Hauksson.

„Hann var mjög öruggur í sínum aðgerðum. Heilt yfir spilaði hann þennan leik feykilega vel, tók góðar ákvarðanir og varði vel. Þetta er mikill uppáhalds drengur uppi á Akranesi. Þetta er algjör toppmaður, vinnur á vellinum og tekur á móti krökkunum í leikfimi og sundi í skólanum og er mjög vinsæll meðal þeirra.“

Innslagið um Dino úr Pepsi Max-stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max Stúkan - Dino Hodzic

Dino vakti mikla athygli með Kára síðasta sumar, sérstaklega fyrir hæfileika sína að verja vítaspyrnur. Hann varði fjórar slíkar í 2. deildinni í fyrra.

Dino, sem er 25 ára, er einn hávaxnasti leikmaður sem hefur spilað í efstu deild á Íslandi en hann telur 2,05 metra.

ÍA er á botni Pepsi Max-deildarinnar með tvö stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar. Næsti leikur Skagamanna er gegn HK-ingum í Kórnum á föstudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×